Samtök gyðinga á Norðurlöndunum saka íslenska þingmenn um atlögu gegn gyðingdómi með lagafrumvarpi um bann við umskurði drengja. Flutningsmaður frumvarpsins gagnrýnir samtökin fyrir gróf afskipti, með bréfi sem þau sendu þingmönnum í dag.

Samtök gyðinga á Norðurlöndunum mótmæla harðlega lagafrumvarpi um bann gegn umskurði drengja. Í sameiginlegri yfirlýsingu samtakanna, sem send var öllum þingmönnum í dag, segir að með þessu sé ráðist gegn gyðingdómi þannig að það snerti gyðinga um heim allan. 

Yfirlýsinguna rita formenn gyðingasamtaka í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Í yfirlýsingunni segir að samtök gyðinga á Norðurlöndunum mótmæli harðlega lagafrumvarpi sem banni umskurð drengja. Í frumvarpinu, sem Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mælti fyrir á Alþingi á fimmtudag, er lagt til allt að sex ára fangelsi við því að umskera drengi. Umskurður á kynfærum stúlkna hefur þegar verið bannaður.

Yfirlýsing gyðingasamtakanna var send öllum þingmönnum í dag og segir í henni að þingmennirnir séu í þann veginn að ráðast gegn gyðingdómi á þann hátt að það snerti gyðinga um allan heim.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá finnst mér þetta vera ákveðin yfirgangssemi að grípa svona inn í störf þingsins. Umræðu um fruvarpið er ekki lokið ennþá. Að öllu eðlilegu þá væri réttara að þeir sem hafa áhuga á að koma fram sínum sjónarmiðum sendi umsögn til nefndar þegar málið er gengið til nefndar. Nú virðast gyðingar ekki vera sammála um þetta að þessu skuli haldið áfram, þannig að mér finnst svolítið djúpt í árinni tekið,“ segir Silja Dögg.

Leita verði þrjú ár aftur í tímann að viðlíka viðbrögðum. Vorið 2015 lögðu nokkrir þingmenn fram þingsályktunartillögu um að fjöldaaftökur Tyrkjahers á Armenum skyldu flokkast sem þjóðarmorð. Sendiherra Tyrklands kallaði eftir fundi með forseta alþingis og flutningsmönnum tillögunnar í framhaldinu.

„Við sem þjóðþing eigum þann rétt, við eigum að hafa svigrúm og frelsi  til að ræða þau mál sem á okkur brenna og komast að einhverri niðurstöðu vonandi fyrir rest. Þannnig að mér finnst afskipti á þessu stigi máls ansi gróf,“ segir Silja Dögg.