Átta manns sem unnu við þrif á íbúðarhóteli var sagt upp eftir að þeir kröfðust þess að fá fasta starfsmannaaðstöðu. Hóteleigandinn viðurkennir að hafa beygt reglur í ellefu ár.
Fyrirtækið Stay Apartments býður ferðamönnum íbúðir til útleigu á nokkrum stöðum í Reykjavík og eru þær flestar í Einholti. Fyrirtækið hefur haft starfsfólk í þrifum. Það hefur kvartað undan því að hafa ekki starfsmannaaðstöðu. „Það er engin aðstaða. Það var ekki greiður aðgangur að salerni og ekki kaffiaðstaða og ekki neitt. Það var svona lítil kompa sem við geymdum skúringarföturnar og klósettpappír og annað slíkt og við gátum hengt upp yfirhafnir,“ segir Ragnhildur Jóhannsdóttir, sem er ein þeirra starfsmanna Stay Apartments, sem kvörtuðu.
Halldór Gerhard Meyer, eigandi Stay Apartments, segir að hann hafi reynt að bregðast við kvörtunum. „Við leituðum lausna þar með var ég að skoða húsnæði sem var hérna rétt hjá sem hefði svo sem hentað en ég hafði áhyggjur af því að það yrði sama og ekkert nýtt,“ segir Halldór.
Hvernig kemst fólk á klósett sem er að vinna hjá þér? „Það er ósköp einfalt, það eru klósett í öllum íbúðum sem fólk er að þrífa,“ segir Halldór. „Jú, ég veit að það er ekki það sem Vinnueftirlitið fer fram á og ég játa það að hafa beygt þá reglu og allir mínir starfsmenn í 11 ár hafa beygt þessa reglu,“ segir Halldór.
Í reglugerð um húsnæði vinnustaða segir: Greiður aðgangur skal vera að salerni og snyrtingu, þó ekki þannig að beint samband sé við matsal eða vinnurými.
Ragnhildur segir að hún og aðrir starfsmenn hafi fyrir viku gengið hart á eftir kröfum sínum. „Og sögðumst vilja hafa samband við Vinnueftirlitið og fá það með okkur í lið til að finna farsæla lausn á þessu vandamáli. Og þá gerast hlutirnir frekar hratt. Eftir að við leggjum þá tillögu til þá koma þeir með einhverjar hugmyndir en boða svo til fundar þar sem við héldum að þær hugmyndir yrðu ræddar en þá komu uppsagnarbréf á alla línuna,“ segir Ragnhildur.
„Það er alveg rétt að það hitti þannig á. Og sannleikurinn er sá að þetta er það sem ýtti mér út í að fara að klára samning við Sólarþrif,“ segir Halldór. Hann tilkynnti um uppsagnir átta starfsmanna til Vinnumálastofnunar og hefur gert samning við verktakann Sólarþrif. „Hvort það sé ranglátt, ég veit það ekki, en þetta vissulega ýtti mér út í þá átt að klára samning,“ segir Halldór.
Hann segir að það sé mun hagkvæmara að semja við Sólarþrif. Starfsfólkið hafi hafnað boði um að fá eina íbúðina í Einholtinu sem starfsmannaaðstöðu. „Það getur vel verið að ég hafi brotið á þeim í þessu tilviki og ekki hlustað nógu vel á þau,“ segir Halldór.