Hagfræðingurinn gerist hér sagnfræðingur og segir að við þurfum að læra af sögunni. Hann er að leggja ýmislegt til sem við getum lært af sögunni til að bæta heiminn, segir Torfi Tulinus bókmenntafræðingur og þýðandi um Auðmagn og hugmyndafræði, Capital et idéologie, nýja bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem hefur vakið mikið umtal og athygli í Frakklandi.

Piketty varð alþjóðleg stjarna í heimi fræðanna árið 2013 eftir að hann gaf út hina stóru og ítarlegu metsölubók, Auðmagn á 21. öldinni, þar sem hann rannsakaði tekju- og eignadreifingu í heiminum og hélt því fram að ójöfnuður hafi aukist verulega á tímum hinnar svokölluðu nýfrjálshyggju frá lokum áttunda áratugarins.

Í nýju bókinni sem kom út í Frakklandi í september gerir Piketty allsherjarúttekt á ójöfönuði og réttlætingu á honum í mismunandi samfélögum í mannkynssögunni. Hann nýtir sér rannsóknir sagnfræðinga alls staðar að úr heiminum til að greina hugmyndafræðilegar undirstöður ójöfnuðar.

Hann skoðar til dæmis lögstéttarsamfélög Evrópu þar sem var skýr skipting var milli aðals, klerkastéttar og almennings. Í Frakklandi til dæmis töldu tvær fyrrnefndu stéttirnar 2-3% þjóðarinnar, en áttu miklu meira en helming heildareignanna og borguðu enga skatta. Ójöfnuðurinn var réttlættur með ákveðnum kvöðum sem hvíldu á þessum forréttindastéttum: aðallinn átti að halda uppi lögum og rétti og kirkjan sá um menntun, hjúkrun og annað slíkt.

Þetta breytist allt með frönsku byltingunni og ámóta þróun víðar í Evrópu. Aðallinn og kirkjan voru svipt þessum skattafríðindum og eignir fóru að dreifast. Verkefni þessara stétta færðust yfir til ríkisins og upp frá því voru engar kvaðir sem fylgdu miklum eignum.

„Á 18. öld og sérstaklega 19. öld verður einhverskonar helgun eignaréttarins sem var miklu minni en áður. Eignarétturinn verður grunnréttindi en það er í sjálfu sér nokkuð óréttlátt því það eru bara örfáir sem eiga allar eignirnar,“ segir Torfi Tulinius um kenningar Piketty.

Þó að ójöfnuður sé minni en í samfélögum nýaldar álítur Piketty að ekki hafi nóg verið gert til að auka jöfnuð. Hann segir enn fremur að í dag séu mörg helstu vandamál heimsins afleiðing af ójöfnuði, bæði innan samfélaga og milli ríkja. Hann telur að stigvaxandi skattlagning á eignir og tekjur sé best til þess fallin, en auk þess sýnir hann með dæmum hvernig hagvöxtur hefur verið sögulega mikill þegar skattar hafa verið háir.

Eins og í fyrri bók sinni leggur Piketty til róttækar tillögur til að auka jöfnuð. „Við þurfum að vinna gegn eignasamþjöppun og auka jöfnuð í samfélaginu,“ segir Torfi um kenningarnar Piketty.

Í bókinni leggur hann til stóraukna skattlagningu á miklar eignir, hátekjur og arf. Hann heldur því reyndar fram að með stigvaxandi skatti myndi tekju- og eignaskattur á mikinn meirihluta almennings lækka.

En hann vill gera ýmislegt fleira: „Hann vill stóraukin völd starfsmanna í fyrirtækjum – það eigi að vera á við eignaréttinn. Hann vill gera eignir á auðlindum tímabundnar og að yfirleitt séu eignir tímabundnar og menn þurfi að endurnýja þær,“ segir Torfi. 

Þá stingur hann upp á því að aukin skattlagning gæti gert ríkjum kleift að gefa öllum borgurum sem eru að hefja fullorðinslíf sitt hálfgerðan arf, start-pening sem hann vill miða við að sé um 60% af meðaleign í landinu – en í Frakklandi er þetta milli 15 og 20 milljónir. „Þessi vítahringur sem margir eru í að eignast þak yfir höfuðið því þeir borga svo háa leigu, hann er úr sögunni.“

Rætt var við Torfa Tulinius í Lestinni á Rás 1í vikulegum lið sem heitir „Bókin sem varpar ljósi á heiminn.“