Ferðabloggarinn Finnur Snær Októson hefur búið á Filippseyjum síðustu ár en er þó sífellt á ferðinni. Hann heldur úti vinsælli Youtube-rás undir nafninu Finn Snow þar sem ferðamyndbönd hans hafa slegið í gegn. Finni hefur tekist að gefa til samfélagsins í sinni borg, meðal annars með því að safna fyrir skóla.

Eflaust dreymir marga um að starfa við það sem Finnur Snær Októson vinnur við en hann er vinsæll Youtube-ari og hannar myndbönd í kringum ferðalög sín. Á Youtube gengur hann undir nafninu Finn Snow og eru nær 320 þúsund áskrifendur að Youtube-rásinni hans. Finnur býr nú á Filippseyjum með kærustunni sinni Shirley. Hann hefur lagt áherslu á að geta gefið til baka til samfélagsins og hefur safnað fyrir skóla handa stúlkum sem hafa verið fórnarlömb mansals. 

„Þetta er kannski svolítið öðruvísi hérna í Filippseyjum, maður er orðinn pínu þekktur þar,“ segir Finnur um líf Youtube-stjörnu. „Það er bara gaman að því, þetta er draumur sem loksins hefur ræst. Lífið manns breytist ekki neitt, maður nýtur sín og fær að gera hvað sem er og kynnast eins mörgu fólki og maður getur og lifir bara drauminum,“ segir Finnur sem fundið hefur sitt draumastarf.

Finnur kvartar ekki undan álagi eða slíku en segir þó að maður þurfi að gefa sig allan í þetta ef vel á að takast til. „Þetta er kannski ekki erfið vinna en þú þarft að gefa þig í þetta og verja öllum þínum tíma í þetta, því að þú gerir í raun ekkert annað. Til dæmis hef ég á þessu ári ekki farið út að skemmta mér einu sinni, hver einasti dagur fer í upptökur, myndvinnslu og pælingar hvað þú ætlar að gera næst. Þetta er óttalega tímafrekt nema að þú sért með teymi í kringum þig. Eins og er þá vinn ég bara einn í þessu,“ segir Finnur Snær eða Finn Snow.

„Ég fór í fyrsta skipti til Filippseyja fyrir þremur árum, ég ætlaði aldrei að búa þar eða slíkt en eftir að hafa kynnst landinu, fólkinu og menningunni, þá var ekki aftur snúið,“ segir Finnur um Filippseyjar. „Fólkið á Filippseyjum er vingjarnlegasta fólk sem ég hef kynnst á ævinni, um leið og þú talar við Filippseying þá finnst þér eins og þú hafir þekkt hann í margar vikur. Þannig eru fyrstu samskipti við þetta fólk, þú ert aldrei einn þarna, það er alltaf einhver vinur þinn. Ef þú ert eitthvað áttavilltur þá taka Filippseyingar daginn sinn í það að koma þér á réttan stað. Þetta er gott fólk og þó maður heyri af slæmum hlutum af landinu í fréttum þá er það alls ekki þannig. Það er alltaf þetta eina prósent sem hefur þann slæma orðstír sem nær út um allan heim. Fólk þekkir kannski ekki til landsins eins og ég, og ég vil meina að þetta sé eitt besta landið að búa í,“ segir Finnur sem er hugfanginn af Filippseyjum.

Finni hefur gengið gríðarvel með ferðamyndbönd sín á Youtube og hann leitaði tækifæra til þess að geta gefið af sér til baka til samfélagsins. „Mig langaði alltaf að gefa til baka, því þegar þú kemur fyrst til Filippseyja þá sérðu svo mikla fátækt og fyrir suma er erfitt að sjá það og sérstaklega fyrir okkur sem höfum búið á Íslandi og höfum það gott. Svo kemur þú í þennan heim þar sem það er flott hús öðrum megin við götuna og svo hinum megin býr einhver í bjálkakofa. Það er svolítið sjokkerandi og ég ákvað að gera það að mínu markmiði að ef ég næði einhverjum árangri þarna úti þá myndi ég vilja gefa til baka. Ég stofnaði þá verkefni sem snýr að byggja skóla fyrir stelpur sem hefur verið bjargað úr mansali í borginni minni. Það er búið að byggja núna um sex hús og skóla sem ég safnaði fyrir og núna eru um 73 stelpur þar,“ segir Finnur Snær glaður í bragði að geta lagt lóð á vogarskálina.