Kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað að Safari-fjölskyldan afganska, sem börn í Hagaskóla söfnuðu undirskriftum fyrir í síðasta mánuði, fái ekki alþjóðlega vernd hér á landi. Lögmaður fjölskyldunnar segir málinu ekki lokið.

Shanhaz Safari og börnum hennar tveimur, Zainab og Amir, verður ekki veitt alþjóðleg vernd og þeim vísað aftur til Grikklands, úrskurður kærunefndar fær að standa.

Fjölskyldan óskaði bæði eftir frestun réttaráhrifa og báðu um að málið yrði tekið fyrir á ný. Báðum kröfum var hafnað af kærunefndinni.

„Máli þessu er ekki lokið,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar. „Það eru dómstólar sem eiga lokaorðið. Við munum stefna íslenska ríkinu og krefjast ógildingar á ákvörðunum stjórnvalda í þessu máli.“

Skólafélagar hinnar 14 ára gömlu Zainab í Hagaskóla í Reykjavík söfnuðu á sjöunda þúsund undirskriftum til stuðnings fjölskyldunni og færðu formanni kærunefndar útlendingamála og dómsmálaráðherra í síðasta mánuði.

Í rökstuðningi kærunefndarinnar segir að ekkert bendi til þess að fjölskyldan hafi myndað sterkari tengsl við Ísland en Grikkland. Magnús Davíð segir það með ólíkindum að kærunefndin haldi þessu fram, enda hafi börnin aðlagast umhverfi sínu mjög vel hér á landi.

Með endurupptökubeiðninni sem kærunefndin hefur fjallað um er meðal annars vísað til undirskriftalistans. Í úrskurðinum segir að ekki hafi verið hægt að byggja niðurstöðu á undirskriftalistanum og það að vísa fólkinu aftur til Grikklands feli ekki í sér ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð.

Í úrskurðinum segir meðal annars: „Að mati nefndarinnar getur niðurstaða um sérstakar ástæður ekki verið byggð á undirskriftalista sem gefur til kynna stuðning tiltekins hóps við umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá áréttar nefndin það mat, sem lýst er í úrskurðinum að endursending kæranda til Grikklands komi ekki til með að fela í sér ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð.“

Magnús Davíð telur aðstæðurnar í Grikklandi ekki boðlegar. „Það er auðvitað þannig að það liggja fyrir fjöldi skýrsla aðþjóðlegra stofnana um ástandið í Grikklandi, hvað varðar hælisleitendur,“ segir Magnús Davíð. „Og það ástand er ekki gott. Þannig að þau eru ekki að fara í óvissar og erfiðar aðstæður þar í landi ef að það verður á endanum niðurstaðan.“