Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segir að lagning sæstrengs milli Bretlands og Íslands sé ekki lengur arðbær. Vindorka sé orðin svo ódýr í Bretlandi að raforka héðan um sæstreng sé ekki samkeppnishæf.
Átökin um þriðja orkupakkann snúast meðal annars um það hvort Íslandi geti ekki staðið í vegi fyrir því að hingað verði lagður sæstrengur. Andstæðingar hans halda þessu fram en fjölmargir fræðimenn segja það ekki á rökum reist. Ekki sé orð um það í tilskipuninni. Einnig að það sé alltaf á valdi íslenska ríkisins að ákveða hvort strengur verður lagður inn í landhelgina.
Þeir sem eru á móti virðast telja að mikil ásókn sé af hálfu Evrópusambandsins að komast í orkuna hér á landi. Hins vegar er alls ekki víst að svo sé. Orkuverð hefur lækkað talsvert, t.d. í Bretlandi, og horfur eru á að með aukinni nýtingu vind- og sólarorku geti Evrópulöndin fullnægt orkuþörf sinni. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, telur að sæstrengur sé ekki lengur hagkvæmur.
Megavattstundin á 60 pund
„Nei, örugglega ekki. Orkuverðið frá vindmyllum í Bretlandi og Evrópu er komið það langt niður. Í Bretlandi minnir mig að verð á megavattstund sé komið niður fyrir 60 pund. Orka héðan mun tæpast borga sig nema bresk stjórnvöld niðurgreiði hana en það er mjög ólíklegt,“ segir Árni.
Umræða af hálfu stjórnvalda um áform um sæstreng milli Íslands og Bretlands hefur nánast þagnað. Hins vegar var talsvert rætt um þau frá 2012 til 2016. Skipaðar voru nefndir og áhugi var mikill af hálfu Breta á að sæstrengur yrði að veruleika. David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, kom hingað í október 2015 og fundaði með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra Íslands í Alþingishúsinu. Þar var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp sem var falið að skoða möguleikana á lagningu sæstrengs. Sigmundur Davíð lagði áherslu á að sæstrengur hefði ekki neikvæð áhrif hér á landi.
„Að þetta leiði ekki til hækkandi verðs fyrir íslenskan almenning og að við missum af atvinnutækifærum hér. En allt í lagi að skoða þetta með Bretum. Ég sagðist vera tilbúinn til þess.“
Þetta var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í hádegisfréttum 29. október 2015.
Í skýrslu, sem Landsvirkjun gaf út, kom fram að með tilkomu sæstrengs myndi raforkuverð hækka. Áhrifin yrðu takmörkuð og auðvelt væri að niðurgreiða aukinn kostnað heimila. Talað var um að flytja út um 1000 megavött. Verðmæti orku sem færi til spillis hér á landi væri á bilinu 15 til 20 milljarðar króna. Og það var talað um að nýta umframorku, vindorku og orku frá smávirkjunum. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar sagði 2012 að sæstrengur væri stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hefðu staðið frammi fyrir.
„Sú viðbótararðsemi, það verð eða verðmæti sem þessi orka gæti haft ef hún kemst til Evrópu, þá er það miklu hærra verð en við gætum fengið á Íslandi. Þau verðmæti sem sköpuðust gætu verið mjög mikil.“
Sagði Hörður Arnarsson á Landsfundi Landsvirkjunar 2012. Hann benti ávallt á að sæstrengur væri ekki á næstu grösum. Það myndi taka tíma að hrinda slíku í framkvæmd.
Vindorkan ekki lengur niðurgreidd
Árni Finnsson bendir á að verðið á vindorkunni hafi lækkað það mikið að nú sé það ekki lengur niðurgreitt.
„Verðið fyrir vindorkuna hefur farið mjög hratt niður að undanfarin ár. Núna er er ekki lengur nauðsynlegt að styrkja vindorku í Bretlandi og Evrópu. Hún er samkeppnishæf við kol eða gas og miklu betri kostur en kjarnorka, sem er mjög dýr.“
- Þú ert að segja að í ljósi þess sem er að gerast í Evrópu sé sæstrengur ekki lengur samkeppnishæfur?
„Það er mjög ótrúlegt miðað við hvernig þessi þróun hefur verið. Verðið fyrir vindorkuna og sólarorku sem er álitlegur kostur fyrir mörg lönd í Evrópu hefur verið á niðurleið. Þessi umræða um sæstreng í þessu tilliti hefur verið einhvern veginn samhengislaus.“ segir Árni Finnsson.