Kjartan Halldórsson sjómaður og veitingamaður, kenndur við Sægreifann, er látinn 75 ára að aldri. Kjartan var úr Meðalllandinu en var lengst af starfsævinnar á sjó. Hann var tvíkvæntur og átti þrjá syni. Fréttastofa RÚV ræddi við Kjartan árið 2011 um uppbyggingu hans á gömlu verbúðunum við höfnina.
Hann hóf fisksölu í gamalli verbúð við höfnina í Reykjavík upp úr aldamótum og sló í gegn. Með versluninni og síðar umsvifamiklum og að sumu leyti gamaldags, sérstæðum eða sérviskulegum veitingarekstri ruddi hann braut húsa- og menningarverndar við höfnina.
Veitingastaður Kjartans, Sægreifinn, er vel þekktur fyrir humarsúpu og annað sjávarfang, og skötuveisla Sægreifans á Þorláksmessu er ómissandi þáttur hjá mörgum fyrir jólin.
Í viðtali við fréttastofu Rúv árið 2011, þar sem sagt var frá framkvæmdum hans við gömlu höfnina, sagði Kjartan að menn hefðu ekki haft mikla trú á rekstri veitingastaðar á svæðinu. Átta árum fyrr stóð til að rífa gömlu verbúðarhúsin en þar eru nú reknir veitingastaðir og verslanir.