Rússneski þjóðlagasöngvarinn Ivan Rebroff sótti Ísland oft heim á áttunda áratugnum og var gríðarlega vinsæll. Árið 1980 seldist upp á fimm tónleika hans í Háskólabíói.

Rebroff var sem sagt það sem sumir myndu kalla mikinn Íslandsvin en hann var þekktur fyrir raddsvið sem spannaði fjórar og hálfa áttund. Í öðrum þætti af Veröld sem var, er rifjuð upp koma ýmissa listamanna til Íslands. Rebroff var að sögn sísyngjandi í æsku. „Fyrir mér var söngur eins og matur. Í rússneskum fjölskyldum var alltaf mikið sungið,“ sagði Rebroff í viðtali í íslenskum menningarþætti á áttunda áratugnum. Hann varð nokkuð hissa þegar félagi hans hrósaði honum fyrir röddina og lagði til að hann legði þetta fyrir sig. „Ég sagði: ertu galinn, á ég að láta borga mér fyrir það? Eitthvað sem ég geri hvort sem er á hverjum degi?“ Rebroff þessi klæddist iðulega loðhúfu og hefðbundnum rússneskum klæðnaði, hann varð frægur fyrir að syngja rússnesk þjóðlög og var tíðrætt í viðtölum um rússneskar fjölskylduhefðir sínar. Síðar kom í ljós að allt benti til þess að hann væri bara óbreyttur Þjóðverji. 

Í Veröld sem var fjalla Felix Bergsson og Margrét Blöndal um sameiginlegar minningar íslensku þjóðarinnar á léttan og nýstárlegan hátt. Hægt er að horfa á eldri þætti í spilaranum.