Þingmenn í Rússlandi hafa brugðist hart við sigri Úkraínu í Eurovision í gær og segja hann lítið annan en pólitískan. Eitt mest lesna dagblaðið í Moskvu sagði sigri Rússa hafa verið stolið. Sigurlag Jamölu, 1944 , fjallar um slæma meðferð Rússa á Tatörum á Krímskaga í seinni heimstyrjöldinni.

Lagið hefur farið töluvert fyrir brjóstið á Rússum  Rússneski þingmaðurinn Frants Klintsevich sagði Úkraínu ekki hafa unnið Eurovision - þarna hefði pólítíkin lagt listina að velli. Rússar ættu að  að íhuga að sniðganga keppnina í Úkraínu að ári. 

Formaður utanríkismálanefndar efri deildar rússneska þingsins, Konstantin Kochachev, sagði sigur Úkraínu stefna friðarferlinu á Krímskaga í hættu og Komso-molskya Pravda sagði dómnefndir í Evrópu hafa stolið sigrinum frá Rússum.

Spennan var mikil þegar komið var að símakosningunni í Eurovision í gær. Dómnefndir í Evrópu virtust hrifnar af úkraínska laginu en það rússneska virtist ekki hafa náð sömu hylli og spáð hafði verið. Rússneska lagið vann símakosninguna en það nægði ekki til og því var það Jamala sem fór með sigur af hólmi.