Rúmlega áttatíu lyf eru ófáanleg hér á landi. Apótekari segir það geta verið fólki mjög erfitt að fá ekki rétt lyf og geti beinlínis verið hættulegt. Eitt lyf er ófáanlegt vegna yfirvofandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en algengari ástæða lyfjaskortsins virðist vera sú að erlendum lyfjaframleiðendum finnst eftirsóknaverðara að leita inn á stærri markaði en Ísland.
„Við finnum fyrir þessu alla daga það er ekki spurning og mismunandi mikið. Sumt er alvarlegra en annað og erfiðara að leysa,“ segir Aðalsteinn Jens Loftsson, apótekari hjá Lyfju.
Lyf við gyllinæð er meðal þeirra lyfja sem hafa verið ófáanleg. Lyfjastofnun birtir upplýsingar um lyfjaskort á vef sínum. Þar er að finna ráðleggingar til lækna um hvaða lyf megi nota í stað þess sem er ófáanlegt.
Athugasemd:
Lyfjastofnun hefur gert athugasemd við fréttina og bendir á að í sumum tilvikum sé að finna lyf á upplýsingasíðunni sem aðeins séu ófáanleg í ákveðnum pakkningum og styrkleika en annar styrkleiki sé til. Þá sé einnig að finna á listanum lyf sem hafi verið ófáanleg en séu komin í sölu á ný. „Í því sambandi er rétt að nefna að verið er að endurskoða framsetningu á upplýsingum stofnunarinnar um lyfjaskort, og á næstunni stendur til að birta lista yfir tilkynntan skort með nýjum hætti, ásamt ráðleggingum Lyfjastofnunar um úrræði,“ segir í tölvupósti til fréttastofu.
„Og þarna háttaði þannig til að framleiðandinn á þessum stílum ákvað að hætta framleiðslu á þeim og selur leyfið til annars framleiðanda. Hann sýndi Íslandi engan áhuga og ákvað bara að skila inn markaðsleyfinu þannig að lyfið er afskráð. Og þá voru góð ráð dýr. Einn innflytjandi alla vega brást þannig við að reyna að útvega þetta lyf á undanþágu og það hefur ekki gengið nógu vel. Síðan hefur einnig verið reynt að útvega svipuð og sambærileg lyf á undanþágu og það verður að segjast alveg eins og er að það hefur alls ekki gengið nógu vel. Og ég verð bara að segja að ég finn til með þessu fólki. Þetta getur verið mjög erfitt og fólki líður bara virkilega illa,“ segir Aðalsteinn.
Þá voru í sumar bæði ófáanleg skjaldkirtilslyf og nefúði við ofnæmi. Og svo eru það ýmis bóluefni. Notkun þeirra hefur aukist mikið í Bandaríkjunum.
„Bandaríkin eru náttúrlega 300 og eitthvað milljónir og við erum ekki nema 300.000 og það er náttúrulega miklu meira spennandi fyrir framleiðendur að versla við Bandaríkin heldur en Ísland. Síðan má nefna eitt í viðbót. Gamalt og gott sýklalyf sem var hreinlega afskráð í sumar. Það var eina lyfið í sínum flokki,“ segir Aðalsteinn.
Einnig hafa betablokkarar sem notaðir eru við háum blóðþrýstingi verið ófáanlegir. Þá hefur yfirvofandi útganga Breta úr Evrópusambandinu áhrif.
„Mér er kunnugt um alla vega eitt lyf sem hefur ekki fengist hérna frá því snemma á þessu lyfi út af Brexit. Það heitir immigran og er stungulyf. Lítið notað en örugglega alvarlegt fyrir þessa fáu einstaklinga sem eru að nota það. Mér er kunnugt um það að þeim hafi sumir lent í miklum vanda. Það var flutt inn eitthvað af undanþágulyfi en það hefur gengið illa að fá það,“ segir Aðalsteinn.
Það sé slæmt þegar búið er að finna lyf sem henta sjúklingi, það fæst ekki lengur og ekki hægt að fá sams konar lyf frá öðrum framleiðanda.
„Þá getur það verið mjög pínlegt og fólk getur jafnvel lent inni á sjúkrahúsi út af því og jafnvel borið alvarlegan skaða af ef ekki er hægt að útvega lyfið sem tekur á vandanum. Listinn er óralangur og í rauninni fáráðnlega langur. Það er bara þannig,“ segir Aðalsteinn.
- Typhim Vi (taugaveikibóluefni)
- Duac
- Flutivate og
- Dermovat
- Opnol
- Doloproct stílar
- BCG-medac
- Íbúfen
- Euthyrox
- Varilrix
- Dalacin
- Tamoxifen Mylan
- Doloproct
- Flixotide
- Amiloride
- Co-trimoxazole
- Testogel
- Surmontil
- Sumatriptan Bluefish
- Twinrix Adult og
- Varilrix
- Harmonet
- Glucagen
- Leptanal
- Surmontil
- Flúoxetín Actavis
- Elvanse Adult
- Sotalol
- Betolvex töflur
- Leflunomide medac
- Sotalol Mylan
- Fucidin krem
- Femanest
- Sobril
- Doloproct endaþarmsstílar
- Imdur Retard töflur
- Ismo Retard töflur
- Fem-Mono Retard töflur
- Klorokinfosfat Recip
- Betolvex töflur
- Questran,
- Questran Loc
- Flutivate og
- Dermovat krem
- Aromasin
- Varilrix bóluefni
- Nebido stungulyf
- Parasetamólstílar 125 mg
- Mianserin Mylan
- Naproxen Mylan og
- Naproxen-E Mylan
- Pinex junior 125 mg endaþarmsstílar
- Norgesic
- Moviprep
- Imigran Stungulyf
- Hjartamagnýl 75 mg magasýruþolin tafla
- Artzal 10 mg/ml stungulyf
- Tamoxifen Mylan
- Prednisolon Actavis
- Decortin H
- Quinine Sulfate Actavis
- Calcium Sandoz
- Buspiron Mylan
- Liothyronin
- Liothyronine Sodium
- Kóvar
- Klomipramin Mylan
- Anafranil
- Furadantin
- Minirin 60 míkróg frostþurrkaðar töflur
- Aspirin Actavis 300 mg töflur
- Cyklokapron töflur
- Syntocinon
- Estrogel
- Colrefuz
- Co-trimoxazole
- Typhim Vi
- Nystimex
- Twinrix
- Havrix
- Varilrix
Þessi listi er birtur á vef Lyfjastofnunar og þar er einnig að finna tillögur að lyfjum sem nota mætti í staðinn en getur fólk beðið um þau í apótekinu?
„Nei, það er nú því miður þannig. Við höfum ekki mjög víðtæka heimild til þess að gera það,“ segir Aðalsteinn.
Lyfjafræðingar mega afgreiða annað lyf en lyfseðill segir til um þegar beðið er um ófáanlegt skjaldkirtilslyf.
„En þegar kemur að öðrum lyfjum og ef ekkert er til sem hægt er að nota, annar styrkleiki eða annar framleiðandi, þá er ekkert annað í boði en að hafa aftur samband við lækninn,“ segir Aðalsteinn.
Þannig að fólk þarf að setja sig aftur í samband við lækninn og fá lyfseðil fyrir öðru lyfi. Er það þá alltaf niðurgreitt af ríkinu?
„Nei, það er nefnilega það ekki alltaf. Eins og t.d. ungþágulyfin, það er reglan frekar en undantekningin að þau séu ekki niðurgreidd,“ segir Aðalsteinn.
Þannig að þetta getur verið bæði óþægindi og auka kostnaður fyrir sjúklinginn?
„Já og þetta er auka álag á heilsugæslustöðvarnar, læknana, sérfræðingana og spítalann. Þetta er bara auka vinna, auka vesen. Þannig að ég myndi segja að það væri æskilegt að þeir sem eru að fást við þessi mál, þeir hóuðu sig saman í einn góðan fund og leituðu lausna,“ segir Aðalsteinn.
Og smæðin vinnur ekki með Íslandi.
„Það er alveg vitað af þeim sem hafa eitthvað unnið í þessum bransa að framleiðendur sækja fyrst í það, ef þeir eru að koma með eitthvað nýtt, hvort sem það eru samheitaframleiðendur eða frumlyfjaframleiðendur, þeir byrja alltaf á því að markaðssetja í stóru löndunum sem við köllum stóru, ríku löndin. Þetta eru löndin sem fá ný lyf fyrst. Það er ekkert launungamál,“ segir Aðalsteinn.