50 ár eru liðin frá því að rokkóperan Tommy með hljómsveitinni Who kom út í Bretlandi. Tommy var frumlegt og framsækið verk sem hafði mikil áhrif á rokktónlistina á sínum tíma og festi hljómsveitina Who rækilega í sessi sem eina af merkari rokkhljómsveitum sögunnar.
Rústuðu gíturum og trommusettum
Föstudaginn 23. maí 1969 komu í plötubúðir í Bretlandi heilu bílfarmarnir af nýju stóru plötunni frá Who - eða plötunum öllu heldur, því þær voru tvær í einu albúmi, bláu að lit, og titillinn var Tommy. Þetta var fjórða stóra plata hljómsveitarinnar Who, sem stofnuð var í Lundúnum árið 1964 af þeim Pete Townshend gítararleikara, Roger Daltrey söngvara, John Enthwistle bassaleikara og Keith Moon trommuleikara. Þeir tveir síðarnefndu eru báðir látnir. Hljómsveitin naut fljótlega talsverðrar hylli meðal táninga og hljóðritaði vinsæl lög eins og My Generation, Substitute og Happy Jack. Tónlistin var kraftmikil, hljómsveitin þótti villt og varð fræg fyrir að eyðileggja bæði gítara og trommusett á tónleikum.
Hljómsveitir í tilvistarkreppu
Enginn efaðist þó um tónlistarhæfileika fjórmenninganna og þar var Pete Townshend fremstur meðal jafningja, en hann samdi flest lög hljómsveitarinnar. Áður en að fjórðu stóru plötu Who kom höfðu ýmsar breytingar átt sér stað í popp- og rokktónlistinni. Framsæknari tónlistarmenn voru margir hverjir að reyna að brjótast út úr tveggja og hálfrar til þriggja mínútna popplagaforminu. Hljómsveitir sem voru vinsælar á árunum 1964 til 1967 lentu margar hverjar í tilvistarkreppu 1968 og 69 ef þær brugðust ekki við breyttum tíðaranda. Sumum tókst þetta vel, eins og Bítlunum, Rolling Stones, Beach Boys og Kinks, en aðrar stöðnuðu og misstu af lesinni.
Sýrusaga verður að óperu
Þetta var staðan sem fjórmenningarnir í Who stóðu frammi fyrir, þeir voru ekki lengur táningahljómsveit og urðu að brydda upp á einhverju nýju. Þá kviknaði hugmyndin að einhvers konar rokkóperu, með söguþræði. Hún hafði reyndar verið að gerjast í kolli Petes Townshend um skeið og úr varð Tommy. Sagan þótti algjör sýra á sínum tíma, ungur drengur er heilaþveginn af móður sinni eftir að hafa orðið vitni að hörmungaratburði innan fjölskyldunnar. Hann missir mál, heyrn og sjón en þróar með sér hæfileika í að spila kúluspil - pinball - betur en nokkur annar. Síðar fær hann málið, sjónina og heyrnina á ný og verður trúarleiðtogi, en fylgjendur hans sætta sig ekki við kenningar hans á endanum og gera uppreisn.
Byggir á æsku Pete Townshends
Sagan ristir reyndar dýpra en menn héldu í upphafi og er byggð að hluta á erfiðri æsku Townshends, sem mátti sæta ofbeldi og níðingsskap innan eigin fjölskyldu. Sagan gekk það nærri honum að hann treysti sér ekki til að semja tvö lög í óperunni, sem fjalla um barnaníð. Hann fékk bassaleikarann John Enthwistle til þess. En þótt söguþráðurinn þætti furðulegur sló Tommy í gegn og hefur platan selst í yfir 20 milljónum eintaka frá því hún kom út. Hljómsveitin Who gekk líka í endurnýjun lífdaga við útkomu hennar og framtíð hennar var tryggð næstu árin.
Lögin höfðuðu til ungs fólks í uppreisn
Tommy þykir í dag kannski ekki alveg eins mikið meistaraverk og þegar hún kom út. T.a.m. eru flestir rokkfræðingar á því að hin rokkóperan frá Who - Quadrophenia - sem kom út 1973, sé mun heilsteyptara og betra verk. Roger Daltrey söngvari Who segir í nýlegu viðtali í New York Post að þegar Tommy var hljóðrituð hafi þeir félagar spilað söguþráðinn svolítið eftir eyranu og ekki vitað hvernig sagan myndi enda. Flest lögin voru hljóðrituð þannig að þau gætu staðið ein og sjálfstæð. Það varð til þess að tvö þekktustu lög óperunnar, Pinball Wizzard, I´m free og See me, feel me, höfðuðu mjög sterkt til ungs fólks sem var í uppreisn gegn ríkjandi gildum í hinum vestræna heimi á þessum tíma.
Hafði áhrif á Trúbrot og Náttúru
Rokkóperan Tommy hafði mikil áhrif á aðra tónlistarmenn í rokkinu og svokallaðar konsept-plötur, plötur sem fjölluðu um eitthvert eitt efni og/eða runnu saman í eina heild urðu um sinn mjög algengar. Þessi bylgja barst hingað til lands meðal annars með uppsetningu poppleiksins Óla í Tjarnarbíói. Meistaraverk hljómsveitarinnar Trúbrots, Lifun, má líka rekja til velgengni Tommy. Hljómsveitin Náttúra tók sig meira að segja til og flutti hluta rokkóperunnar Tommy í sjónvarpssal sama ár og hún kom út 1969.