„Þetta var mjög gleðilegt og ég get sagt að það hafi komið okkur pínulítið á óvart þegar björgunarsveitarmenn á snjósleðum keyrðu fram á hann á gangi með hundinum sínum,“ segir Eiður Ragnarsson, svæðisstjórnarmaður hjá björgunarsveitunum. Rjúpnaskyttan, sem hafði verið saknað síðan á föstudagskvöld, fannst heil á húfi um klukkan tíu í morgun. Hún er nú á leiðinni suður til Reykjavíkur með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Frétt uppfærð klukkan 12:42
Hér að ofan má sjá myndskeið sem Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður RÚV á Austurlandi, tók þegar rjúpnaskyttan faðmaði þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar að sér. Samkvæmt heimildum fréttastofu er rjúpnaskyttan læknir og þaulvanur útivistamaður í mjög góðu formi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti hann á flugvöllinn á Egilsstöðum og þegar hann kom út úr þyrlunni faðmaði hann bæði starfsmenn flugvallarins og björgunarsveitarmenn. Hann beið síðan eftir lækni og sjúkrabíl á kaffistofu starfsmanna flugvallarins. Björgunarsveitarmaður varð eftir hjá hundinum en það átti að sækja hann um leið og rjúpnaskyttunni hafði verið komið undir læknishendur.
Eiður segir að skyttan, sem er á fertugsaldri, hafi grafið sig í fönn í nótt og síðan farið aftur á ferðina í morgun. Hann segist ekki vita hvernig hann fór að fyrri nóttina sem hann var úti. „Hann var töluvert langt frá byggð en hann var það vel á sig kominn að það þurfti ekkert að hlúa að honum þegar sleðahópurinn fann hann.“ Samkvæmt heimildum fréttastofu fór maðurinn af stað ásamt tveimur félögum sínum. Þeir urðu viðskila og þegar veður fór að versna á föstudagskvöld óskuðu veiðifélagarnir eftir aðstoð björgunarsveita.
Maðurinn gróf sig einnig í fönn á föstudagskvöld. Hann nýtti síðan tækifæri sem gafst þegar birti til og stytti aðeins upp á laugardeginum og gekk ásamt hundi sínum. En gróf sig síðan aftur í fönn á laugardeginum á öðrum stað þegar veður tók að versna.
Hátt í 200 björgunarsveitarmenn voru farnir af stað strax í birtingu í morgun til að leita mannsins en að sögn Eiðs voru þeir allir kallaðir aftur þegar maðurinn fannst. Þegar mest var voru um 360 björgunarsveitarmenn af öllu landinu við leit en um fimmtíu björgunarsveitarmenn flugu frá Reykjavík til Egilsstaða í gærdag og komu með 1,5 tonn af leitarbúnaði og leitarhunda.