Beðja, brúður, dama, drós, man, feima, fljóð og frú. Ristill, nanna, nift, sprund, víf, svanni, snót og hrund. Allt eru þetta samheiti orðsins kona sem gefin eru upp í Íslenskri samheitaorðabók.

Kvenheitin eru þó ekki öll kvenkyns og geta verið vandmeðfarin. Sprund og man eru til að mynda hvorugkynsorð en svanni karlkynsorð. 

Um málfræði kvenheita orti Ingunn Ásdísardóttir eftirfarandi minnisvísu: 

Vel skal yrkja um víf og fljóð,

væna svanna og sprundin góð; 

fagurt er manið og frúin rjóð,

feima hentar í ástarljóð.

Málfarsmínútan er flutt í Samfélaginu á Rás 1 þrisvar í viku.