Ríkisstjórnin ræðir nú að sniðganga HM í Rússlandi, til að sýna samstöðu með Bretum sem saka rússnesk stjórnvöld um að bera ábyrgð á taugaeiturárás á breskri grundu nýverið. Þá yrðu engir íslenskir ráðamenn viðstaddir heimsmeistaramótið. Utanríkisráðherra segir að endanleg ákvörðun liggi ekki fyrir. Það sé þó alveg skýrt að íslenska landsliðið og stuðningsmenn þess verði á sínum stað þegar mótið hefjist.

Sendiherra Íslands í Rússlandi hvatti íslensk stjórnvöld til þess í fréttum RÚV í gær að huga vel að því hvernig land og þjóð verði kynnt samhliða heimsmeistaramótinu í knattspyrnu karla, sem fram fer í Rússlandi í sumar. Mikill áhugi sé á landinu vegna þáttöku íslenska karlalandsliðsins á mótinu.

„Þetta er alveg einstakt tækifæri. Við erum ekki bara fámennasta þjóðin sem hefur komist á heimsmeistaramótið, við erum lang fámennasta þjóðin,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Reynslan af EM sýni að Ísland hafi vakið athygli víðar en í Frakklandi. „Það er mjög mikilvægt að við nýtum þá tækifærið núna þegar við fáum þessa miklu athygli til að koma okkar landi á framfæri og það sem við höfum upp á að bjóða,“ segir Guðlaugur.

Nú sé unnið að því hvernig ímynd Íslands verði kynnt á alþjóðavettvangi. Lögð verði áhersla á sjálfbærni, jafnrétti, mannréttindi, sjávarútveg, jarðvarma og skapandi greinar eins og bókmenntir.

Árásin í Salisbury grafalvarlegur hlutur

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur fullyrt að Rússar hafi staðið á bak við árásina á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og dóttur hans í Salisbury fyrir hálfum mánuði. Í mótmælaskyni ætla hvorki ráðherrar né breska konungsfjölskyldan að mæta á HM í sumar. Danska ríkisstjórnin hefur lýst stuðningi við Breta og hefur rætt að ráðamenn sniðgangi HM. 
 

„Það sem við erum við að ræða eru auðvitað viðbrögðin við þessum atburðum í Bretlandi. Þetta eru grafalvarlegir hlutir og tengjast ekki bara Bretum. Þess vegna berast fréttir af þessu frá Danmörku og við erum auðvitað að ræða þetta meðal okkar bandalagsþjóða og hver niðurstaðan verður á eftir að koma í ljós. Auðvitað mun okkar lið mæta og aðdáendur liðsins, það er enginn vafi á því,“ segir Guðlaugur Þór.

Þannig að þið eruð að ræða það í ríkisstjórninni að hugsanlega mæti íslenskir ráðherrar ekki á þessa leiki? „Það á auðvitað eftir að koma í ljós hver niðurstaðan verður en það er alveg rétt að við erum að skoða þessi mál með okkar bandalagsþjóðum hver viðbrögðin verða við þessum grafalvarlegu hlutum,“ segir Guðlaugur Þór.