Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segist ekki muna til þess að rætt hafi verið um sína persónulega framtíð í embætti á fundi hans með dómsmálaráðherra.

Hann segir hjaðningavíg hafa átt sér stað innan lögreglunnar. „Hjaðningavíg skila engu nema menn falli,“ sagði Haraldur. Hann segir fundinn með ráðherra hafa verið gagnlegan og góðan.

„Ég held að við séum öll sammála um að nú verða málefni lögreglunnar leyst innan lögreglu með samtölum okkar á milli og við reynum að hætta að karpa í fjölmiðlum,“ sagði Haraldur.

Haraldur var spurður út í ummæli um spillingu í viðtali við hann sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. Hann segir of mikið gert úr þessum ummælum. Dæmi séu um að slíkt hafi komið upp en almennt sé ekki hægt að tala um spillta lögreglu. „Það hef ég aldrei sagt.“