Sjómenn landsins voru harðir af sér og unnu myrkranna á milli, en kunnu líka að gera sér glaðan dag og þar bar sjómannadaginn hæst. Á árum áður voru haldnir kabarettar víða um land með ýmsum undarlegum skemmtiatriðum.
Sjómannadagsráð, sem var stofnað 1937 og bar hitann og þungann af skipulagi dagsins, setti á fót sjómannakabarett. „Þau sem voru í stjórn sjómannadagsráðs voru ótrúlega frjó í hugsun. Þau samþykktu það 1939 að þeirra meginmarkmið auk þess að halda sjómannadaginn og minnast drukknaðra skyldi vera að byggja elli- og hvíldarheimili fyrir farmenn og fiskimenn,“ segir Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi formaður Sjómannadagsráðs.
Til að fjármagna þau var ákveðið að halda kabarettsýningu. „Enda var ekki um auðugan garð að gresja í sambandi við skemmtanalíf á þessum tíma. Þau fengu skip lánuð hjá útgerðum sem sigldu til Akraness, þar var farið í rútum upp í Ölver og stiginn dans, rúturnar aftur að skipshlið í Akraneshöfn og allir kátir og glaðir.“
Í þriðja þætta af Veröld sem var er fjallað um sjómennsku. Við sögu koma óskalög sjómanna, ástir og ævintýr, brimhljóð og veðragnýr, síldin og Morthens-bræðurnir sem gerðu sitt besta til að eyðileggja glansmyndina. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni sem og eldri þætti í spilaranum.