Réttur kvenna til þungunarrofs hefur verið takmarkaður í mörgum ríkjum Bandaríkjanna á síðustu mánuðum. Öldungadeild ríkisþingsins í Alabama samþykkti í gær bann við þungunarrofi á öllum stigum meðgöngu, nema líf móðurinnar sé í hættu.

Í gær samþykkti öldungadeild ríkisþings Alabama lög sem banna þungunarrof á öllum stigum meðgöngu nema líf móðurinnar liggi við. Engu máli skiptir að þungunin sé vegna nauðgunar eða sifjaspells, að fóstrið sé með alvarlega fötlun eða að óskað sé eftir þungunarrofi vegna fjárhagslegra eða félagslegra ástæðna. Þá eiga læknar sem framkvæma þungunarrof yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Með löggjöfinni hyggjast Repúblikanir snúa við dómi frá 1973 sem viðurkenndi rétt kvenna til þungunarrofs.

Miklar breytingar eru að verða á þungunarrofslöggjöf í Bandaríkjunum. Ríkisþingmenn í Georgíu, Kentucky, Mississippi og Ohio hafa nýlega samþykkt bönn við þungunarrofi eftir sex vikna meðgöngu. Hvergi hefur þó verið gengið jafn langt og í Alabama. Löggjöfinni hefur verið mótmælt víða í dag.