Brotaþolar í málum kynferðisofbeldis hafa verið afskiptur hópur hér á landi að mati dósents við lagadeild HR. Styrkja þarf réttarstöðu brotaþolanna og hlúa betur að þeim innan réttarkerfisins. Ný skýrsla um stöðu brotaþola á Norðurlöndunum sýnir fram á að staða þeirra hér á landi er hvað lökust af Norðurlöndunum.
Réttarstaða þolenda kynferðisofbeldis er yfirskrift Málþings sem haldið verður í Háskólanum í Reykjavík á morgun. Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR, og Hildur Fjóla Antonsdóttir, doktorsnemi í réttarfélagsfræði, verða á meðal fyrirlesara. Þær voru gestir Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun þar sem þær ræddu hvað megi betur fara í málaflokknum.
Réttarstaða brotaþola lökust á Íslandi
Réttarstaða brotaþola á Íslandi er hvað lökust á Norðurlöndunum en Ísland og Danir reka lestina, þetta sýnir ný skýrsla um stöðu þessa hóps á Norðurlöndunum fram á að sögn Hildar Fjólu. Það megi að einhverju leyti rekja til þess að réttarkerfi okkar er byggt á því danska en eins hafi umræðan ekki átt sér stað hér á landi líkt og í öðrum löndum.
„Lengi hefur verið hefð fyrir því í Svíþjóð og Finnlandi að réttarstaða brotaþola er mjög sterk og hefur alltaf verið, allavega á pappír í lögunum. En þróunin hefur verið önnur í vestnorrænu ríkjunum. Norðmenn árið 2008 gerðu gagngerar breytingar á réttarstöðu brotaþola hjá sér og styrktu þeirra stöðu til muna. Nú erum við og Danir komnir aftur úr, “ segir Hildur.
Löggjöfin geri það að verkum að brotaþola er haldið utan sakamálsins. Hann hafi ekki rétt á upplýsingum og eftir að kæra hefur verið lögð fram tekur við einungis við löng bið á meðan úrvinnslu stendur. Svala segir að brotaþolar hér á landi hafi þannig á margan hátt verið afskiptur hópur.
„Á margan hátt eðlilega en kannski líka ónauðsynlega. Löggjöfin er þannig að þolandi brots hefur ekki stöðu aðila máls, það er í sakamálum annars vegar ríkisvaldið og hins vegar ákæruvaldið, á meðan brotaþoli hefur stöðu vitnis og er liður í sönnunarfærslu lögreglu og ákæranda. Hans upplifun og vitnisburður er sönnunargagn í málinu, “ segir Svala.
Leggur til að brotaþoli verði aðili að sakamálinu
Hildur skilaði nýlega af sér greinagerð um það hvaða leiðir eru færar og æskilegar til að styrkja réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis hér á landi. Þar er lagt til að brotaþolar séu gerðir aðilar að sakamálinu svo þeir fái flest þau réttindi aðila máls.
„Ég held að það muni styrkja stöðu þeirra til muna og gera þetta ferli allt saman auðveldara fyrir brotaþola því þetta getur verið mjög þungbært fyrir hann að fara í gegnum þetta. Þetta er spurning um að auka upplýsingagjöf til brotaþola, auka þátttökurétt brotaþola í ferlinu og síðan auka aðgengi brotaþola að bótarétti. Það þarf að styrkja þann hluta líka, “ segir Hildur.
Svala segir að endurskoða þurfi löggjöfina og ráðast í breytingar á henni en auk þess séu aðrir hlutir sem auðveldara sé að bæta. Breyta þurfi viðmóti, viðhorfi og upplýsingaflæði til brotaþola. Til að breyta því þurfi ekki löggjöf heldur kerfi sem sé nærgætnara og tillitsamara gagnvart þessum hópi sem oft á tíðum beri alvarlegar afleiðingar brotanna og þjáist á meðan bið eftir meðferð málsins stendur.
„Þau samskipti og upplýsingar sem brotaþoli fær sem manneskja, ekki endilega sem lögpersóna. Við sjáum á nýlegum rannsóknum að brotaþolar kvarta mikið yfir samskiptaleysi við yfirvöld við rannókn þessara mála og meðferð þeirra í kerfinu og skorti á upplýsingum sem veldur þeim mikilli óvissu og spennu og álagi og rannsóknir hafa bent til þess að þessi spenna og óvissa eykur afleiðingar brotanna,“ segir Svala.
Niðurfellingarbréf oft fyrstu fregnir brotaþola af málinu
Bréf með upplýsingum um niðurfellingu sakamáls getur oft á tíðum veirð fyrstu samskipti og upplýsingar sem brotaþoli fær um mál sitt eftir langa og strembna bið sem getur skipt mánuðum, eða jafnvel árum, frá því að kæra var lögð fram. Svala segir að biðin geti valdið angist og jafnvel sjúkdómum eða veikindum. Þetta mætti koma í veg fyrir að einhverju leyti með breyttu viðmóti.
„Við þurfum að taka mark á þessari reynslu og velta því upp hvað við getum gert til að minnka þetta og hlúa að þessum hópi á meðan á málinu stendur í kerfinu og jafnvel líka þegar fyrir dóm er komið. Það getur líka reynst þessum hópi erfitt að ganga í gegnum dómsmeðferð, “ segir Svala.
Hildur bætir því að sá aðili sem oftast viti hvað mest um málið sé brotaþoli. Kerfið geri það að verkum að þekking hans sé vannýtt.
„Það er kannski ekki alveg verið að nýta þekkingu brotaþola á málinu til fulls. Ef hann fengi betri upplýsingar um málið og rannsókn málsins gæti hann komið á framfæri upplýsingum sem gæti skipt máli en oft er það þannig að brotaþolar brenna inni með upplsýsingar því þau vita ekkert hvað er að gerast með málið sitt.“