Hópur náttúruverndarsinna rannsakar nú áhrif örplasts í hafinu. Arctic Whale hópurinn er við rannsóknir á Skjálfandaflóa og safnar sýnum úr hafinu og hvölum. Skilaboð náttúruverndarsinnanna eru skýr; allir þurfi að breyta sínum lifnaðarháttum áður en það sé of seint. 

Arctic Whale hópurinn hefur í 10 ár sinnt ýmsum verkefnum á skútunni Barba sem er eins konar miðstöð fyrir vísindamenn. Þau nota stórbrotnar náttúrumyndir til þess að koma niðurstöðum rannsókna og skilaboðum á framfæri og spila samfélagsmiðlar þar stórt hlutverk. Hvalir eru í aðalhlutverki sem fulltrúar hafsins en þau vilja sýna hvaða áhrif plastnotkun hefur á þá og þar með allt lífríki sjávar. 

Hvalrekar um allan heim

„Hvalurinn er það dýr í sjónum sem er hvað líkast okkur mönnunum,“ segir Andreas B. Heide, skipstjóri og stofnandi Arctic Whale. Hann reki dauðan á land fullan af plasti út um allan heim. Ef það fái fólk ekki til að hugsa, hvað þá? Margir leggja verkefninu lið og vísindamenn koma og fara frá borði. Að þessu sinni eru 5 í áhöfn, þar á meðal líftæknifræðingur, blaðamaður og myndatökumaður.

Þessi leiðangur hófst í byrjun maí í Stafangri í Noregi, þaðan var siglt til Hjaltlandseyja og svo áleiðis til Færeyja. Nú er hópurinn kominn til Húsavíkur og ætlar að dvelja þar í þrjár vikur. Á leiðinni fylgdust þau með hvölum og söfnuðu sýnum úr hafinu sem þau ætla að rannsaka nánar til að sjá hversu mikið finnst af örplasti. Til þess fá þau aðstöðu hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Húsavík.

Plastið komið inn í fæðukeðjuna

Plast endar í hafinu og brotnar niður, meðal annars vegna öldugangs og sólarljóss. Örplastið flýtur því um hafið og festist eða blandast við þörunga og dýrasvif sem er fæða margra sjávardýra. Diane Seda líftæknifræðingur sér um vinna úr þeim sýnum sem þau hafa safnað. Hún segir sjávardýrin ekki geta greint hvort um plast eða mat sé að ræða og gleypi flestallt og þar með sé örplastið komið inn í fæðukeðjuna. Hún segir mannkynið aðeins hafa 5-10 ár áður en mengunin verði komin á þann stað að ekki verði aftur snúið.

Hópurinn er í samstarfi við Háskóla Íslands og Oslóarháskóla og það er mikil vinna fram undan á Húsavík. Ásamt því að greina sýni sem þau hafa safnað mun hópurinn aðstoða vísindamenn við að ná vefjasýnum úr steypireyði. Þau sýni verða send til Oslóarháskóla þar sem þau verða rannsökuð og leitað að örplasti. Þá verður blástur frá hvölum líka skoðaður í leit að örplasti. Sú sýnasöfnun felur ekki í sér neitt inngrip en sýnum er safnað saman með því að fljúga dróna með tilraunaglösum í gegnum blástur hjá hvölum.

Vilja fá fólk til að breyta lifnaðarháttum sínum

Heide er viss um að fólk geri sér ekki grein fyrir ástandinu í hafinu. Ef svo væri myndi það vilja breyta sínum háttum. Þau vilja vekja fólk til umhugsunar um áhrif plastnotkunar og mengunar af hennar völdum og vonast til þess að verkefnið fái fólk til að breyta lifnaðarháttum sínum. Margar litlar breytingar skili miklu. Leiðangur Barba endar hér í bili en fáist fjármagn verður haldið áfram næsta sumar  til Jan Mayen, Svalbarða og að lokum Bjarnareyjar.