Íslenskar íþróttakonur sem hafa fengið heilahristing eru þrisvar sinnum líklegri til að vera með einkenni þunglyndis og kvíða en þær sem ekki hafa sögu um höfuðáverða. Þetta sýna fyrstu niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar.
Við gerð rannsóknarinnar var reynt að ná til allra kvenna hér á landi, 45 ára og yngri, sem stunda eða hafa stundað fótbolta, körfubolta, handbolta, íshokkí, júdó, karate og aðrar íþróttir þar sem hætta er á höfuðáverkum. Þær voru beðnar að svara því hvort þær hafi fengið heilahristing. Svör bárust frá um 500 konum og höfðu yfir 300 fengið heilahristing einu sinni eða oftar á íþróttaferlinum. Viðtöl voru tekin við þær konur, þær tóku taugasálfræðileg próf, fóru í læknisskoðun og blóðprufu.
Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og lektor og sviðsstjóri við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík, er ein þeirra sem vinna að rannsókninni. „Fyrstu niðurstöður eru komnar og þar sjáum við að þær konur sem hafa sögu um heilahristing, þær eru þrisvar sinnum líklegri til að vera með yfir klínísk viðmið af þunglyndi en þær sem hafa ekki sögu um heilahristing og þær eru líka töluvert kvíðnari. Þannig að þetta kom töluvert á óvart og við erum að greina þessi gögn betur. En þetta er samt alveg skýrt að þetta er svona,“ sagði Hafrún í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Hafrún segir að þekkt sé að heilahristingur geti haft áhrif á starfsemi heiladinguls. Það hafi þó ekki verið mikið rannsakað hjá íþróttafólki. Verði heiladingullinn fyrir skaða geti orðið röskun á hormónastarfsemi. Stefnt er að því að rannsaka þetta betur. „Þetta getur valdið alls kyns einkennum sem fólk tengir kannski ekki við höfuðhögg sem það fékk fyrir tíu árum. Þess vegna setjum við allar konurnar í blóðprufur og það er byrjað núna og ég held að það verði athyglisverðar niðurstöður úr því.“
Samkvæmt niðurstöðum forrannsóknar sem gerð var fyrir fjórum árum hér á landi hafa 11 prósent leikmanna í efstu deildum í fótbolta verið beittir þrýstingi frá þjálfara til að halda leik áfram þrátt fyrir einkenni höfuðhöggs. Rúm 40 prósent héldu áfram þrátt fyrir viðvaranir sjúkraþjálfara. Hafrún segir að umræða um alvarleika höfuðhögga hafi aukist en að sama skapi séu höggin þyngri nú en áður. Í mörgum íþróttum sé leikurinn nú hraðari en fyrir nokkrum árum.