Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Guðjóns Skarphéðinssonr, segist vera ánægður með niðurstöður Hæstaréttar í Guðmundar, og Geirfinnsmálinu í dag. Lögfræðilega séð sé hann þó óánægður með forsendurnar fyrir niðurstöðunni, sem sé einungis byggð á dómkröfum ákæruvaldsins.

„Lögfræðilega er ég ekki ánægður með forsendur dómsins vegna þess að niðurstaðan er eingöngu byggð á dómkröfum ákæruvaldsins og við þeim verði dómurinn að verða,“ sagði Ragnar í beinni útsendingu RÚV rétt eftir að dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í dag. „Þannig að dómurinn lagði ekki í það að gera hinar nauðsynlegu athugasemdir við meðferð þessa máls allt frá 1976 til 1980. Þar auðvitað er mjög líklegt að hafi áhrif að dómararnir eigi erfitt með að gagnrýna sína eigin stofnun fyrir það sem gerðist 1980. Til þess þarf auðvitað mikinn kjark og mikið áræðni og mikla einbeitingu. Það gerðist ekki því miður. Ég er ánægður með niðurstöðuna en ekki forsenduna.“

Klara Bragadóttir eiginkona Guðjóns Skarphéðinssonar var viðstödd dómsuppkvaðninguna. Hún segir daginn í dag vera gleðidag. „Ég hefði persónulega kosið að það hefði verið lýst yfir sakleysi Guðjóns,“ sagði hún í viðtali við RÚV. Guðjón mætti ekki sjálfur við dómsuppsögu heldur var heima hjá sér með dætrum sínum.

Klara segist hafa trúað því að þessi dagur kæmi. „Þetta mál hafði aldrei sofnað, það var alltaf vakið upp aftur,“ sagði Klara. 

Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Alberts Khlan, sagði sigurinn ekki aðens vera sigur verjenda heldur líka sigur sets saksóknara og réttarkerfisins í heild. Vafalaust væri skjólstæðingi sínum létt.