Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir því að landlæknir geri úttekt á rafrettum, eftir að unglingur greindist með lungnasjúkdóm sem talið er að megi rekja til þeirra. Átta hafa látist í Bandaríkjunum vegna slíkra sjúkdóma.

Grunur leikur á að lungnasjúkdómur sem unglingur greindist nýlega með hér á landi tengist notkun á rafrettum. Á heimasíðu Landlæknis segir að sjúklingurinn sé á batavegi, en einkennum sjúkdómsins svipi til þess sem lýst hefur verið í Bandaríkjunum, þar sem fjölmargir hafa veikst.  

„Það er mjög alvarlegt ef það er að koma í ljós að þarna sé meiri hætta á ferðinni en áður var talið,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. 

„Ég hef óskað eftir úttekt embættis landlæknis á því sem þarna er á ferðinni og því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur varðandi löggjöfina og framkvæmdina. Og ég ræddi reyndar við landlækni síðast í hádeginu í dag og hún telur að við þurfum að stíga fastar til jarðar, bæði varðandi regluverkið sem við erum með og ekki síður framkvæmdina á sölunni og eftirlitinu.“

Harðari löggjöf

Svandís á von á minnisblaði um málið frá embætti Landlæknis fljótlega.

„Við erum með mjög nýlega löggjöf á Íslandi og henni var sérstaklega ætlað að passa upp á börn og ungmenni. En þarna erum við að sjá vísbendingar um að við þurfum að horfa ennþá meira til þess að heilsan njóti vafans. Því að þarna eru augljóslega á ferðinni einkenni sem kunna að leiða okkur í þá átt að vera með harðari löggjöf og stífari mörk utan um þessa starfsemi.“

Svandís segir að Alma Möller landlæknir hafi vakið máls á því við sig að réttast væri að banna veipvökva með einkennandi bragðefnum.

Þeir sem eru fylgjandi rafrettum segja að þetta sé mjög öflugt tæki fyrir fólk til þess að hætt að reykja sígarettur - hverju svarar þú því?

„Það eru til fleiri leiðir og þær eru sumar hverjar gagnreyndar. Og eru seldar í apótekum. Þannig að það eru aðrar leiðir til.“

En hefurðu skilning á sjónarmiðum þeirra sem segja að þetta sé gott tæki til þess að hætta að reykja?

„Að sjálfsögðu hef ég það. Og það voru meðal annars þau sjónarmið sem voru undir í þeirri löggjöf sem þingið samþykkti í fyrravetur. En í ljósi þessara upplýsinga, og ekki bara þessara íslensku upplýsinga heldur líka frekari upplýsinga frá löndunum í kringum okkur, þá er ástæða til þess að fara yfir þetta enn og aftur,“ segir Svandís.

Í Bandaríkjunum hafa rúmlega fimm hundruð manns veikst eftir notkun á rafrettum og tengdum vörum. Þá er talið að rekja megi átta dauðsföll þar í landi til slíkra sjúkdóma. Í kjölfar þess hefur bandaríski smásölurisinn Walmart ákveðið að hætta sölu á rafrettum og tilheyrandi varningi. Walmart rekur ríflega 11.000 verslanir í 27 löndum. Æ víðar er þrengt að rafrettum og veipvökva. Í Michigan og New York-ríki hefur sala á bragðbættum veipvökva verið bönnuð, og aukinn þrýstingur er á stjórnvöld að banna slíkan vökva á landsvísu. Á Indlandi hefur öll framleiðsla, innflutningur og sala á rafrettum og tengdum vörum verið bönnuð.