Rafmagnsflutningskerfið í landinu er allt of veikt til að geta mætt þeim breytingum sem fylgja orkuskiptum. Rafvæðing hafna, rafvæðing einkabílsins, samgangna, atvinnutækja o.s.frv. allt þetta hleðst upp, segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Í nýrri kerfisáætlun fyrirtækisins er gert ráð fyrir framkvæmdum fyrir 8 milljarða á ári næstu tíu árin
Ný kerfisáætlun Landsnets
Fyrsta skemmtiferðaskipið kom til landsins í dag. Rafvæðing hafna er liður 14 í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Í janúar var kynnt í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu skýrsla um orkuskipti í íslenskum höfnum þar sem kemur fram að staða raftenginga til skipa í höfnum sé nokkuð góð þegar litið er til lágspennutenginga en skortur sé á háspennutengingum sem stærri skip þurfa.
Í kerfisáætlun Landsnets sem birt var í dag eru kynnt áform fyrirtækisins um uppbyggingu flutningskerfisins og helstu verkefni til þriggja ára. Guðmundur segir að í grænni sviðsmynd Landsnets sé fjallað um orkuskipti bæði í samgöngum og í atvinnulífinu og rafvæðing hafna er hluti af henni.
Innviðir of veikir í höfnunum
„Öll þessi orkuskipti leggjast saman og hafa áhrif á þessi stóru kerfi. Síðan er þetta líka verkefni fyrir dreifiveiturnar á hverjum stað. Hérna í Reykjavík sjá Veitur um það og svo Rarik út um allt land eða Orkubú Vestfjarða. Það þarf að styrkja innviðina mikið og þar kannski reynir meira á fjárfestingarnar í þessu tilviki heldur en akkúrat okkur.“
„Í flestum tilvikum getur kannski flutningskerfið annað þessu aukna afli vegna skipanna eingöngu en innviðir dreifikerfisins eru þá veiki hlekkurinn og þarfnast oft mikilla fjárfestinga.“
Venjuleg fiskiskip geta tengst við 125 ampera rafmagn víða í höfnum landsins. Það rafmagn dugar fyrir skip sem er ekki með neitt í gangi. Um leið og nota þarf krana, eða dælumótor dugir það ekki.
„Við erum akkúrat að tala um þessa innviði sem eru of veikir. Þeir kannski ráða við ljósavélar fiskiskipanna en ef það er mikið álag þá ræður það ekki við það. Svo er náttúrlega ágætt að hafa það í huga þessi stóru skemmtiferðaskip eru gríðarlega stór og álagið frá þeim, svona til skamms tíma þau náttúrlega stoppa ekki lengi við, að það er kannski eins og ágætis bæjarfélag hér á Íslandi. Og þegar þetta kemur og er stungið á einn tengil þá þarf þessi tengill að vera dálítið öflugur.“
Það sama á við um gróðurhús og mörg iðnfyrirtæki sem taka mikið rafmagn. Guðmundur segir að þróun sé að verða í atvinnulífinu yfir í rafmagn.
Rafvæðing hafna, einkabílsins, atvinnutækja
„Fyrir nokkrum árum vorum við með fiskmjölsverksmiðjunum í gríðarlegu átaki þar sem þau voru að skipta yfir í rafmagn. Það samstarf er áframhaldandi þannig að við erum enn að vinna með þeim að reyna að klára það verkefni. Og sérstaklega kannski í Vestmannaeyjum svo dæmi sé tekið. Þannig að það er ekki búið að klára það? Ekki alveg. Það eru sumar verksmiðjurnar að keyra á olíu og það er svona verið að huga að því hvernig er hægt að ganga enn lengra til þess að taka út þessa mengandi orkugjafa.“
Guðmundur segir að ýmsir möguleikar séu í stöðunni. Hann talar um sviðsmyndir.
„Þær ganga út á það að rafvæða hafnirnar. Ef maður horfir á það eitt sér þá er það hægt. Svo er það að rafvæða einkabílinn það er líka hægt og svo er að rafvæða aðrar samgöngur, atvinnutækin o.s.frv. Allar þessar sviðsmyndir stakkast upp og við erum í raun og veru að horfa til framtíðar og horfa á þessa heildarmynd í okkar grænu sviðsmynd. Og sú staðreynd liggur náttúrlega fyrir að flutningskerfið í landinu er allt of veikt og það þarf að styrkja það og það er það sem við erum að gera. Og lausnirnar erum við að sýna í okkar kerfisáætlun og við erum líka að framkvæma. Við erum að styrkja t.d. byggðalínuhringinn, fyrsti áfanginn er að fara í gang bara núna eftir nokkrar vikur.“
Framkvæmdir fyrir 8 milljarða á ári
Græna sviðsmyndin í kerfisáætluninni tekur tilltit til orkuskiptanna auk núverandi notkunar og starfsemi.
„Hún krefst þess að við styrkjum kerfið þar sem það er ekki nógu sterkt sem er víða á landinu og við þurfum að bregðast við því. Hvar er það, hvað er brýnast? Í raun og veru er það þetta byggðalínusvæði sem er stærsti hlutinn af landsbyggðinni, það er Vestfirðir, Norðurland og Austurland að þar er mikið vandamál sem við þurfum að vinna niður. Nú síðan er það Reykjanesið það er bara ein lína út á Reykjanes og ef hún bilar þá er rafmagnslaust þar þannig að öryggismálin eru erfið á Reykjanesi. Þetta eru svona brennipunktarnir getum við sagt. Nú síðan er búið að vera aukast álag á kerfinu þannig að á höfuðborgarsvæðinu hrannast upp vandamálin líka þannig að það má segja að við séum að huga nánast að öllu landinu.“
Í kerfisáætlunni er getið um helstu framkvæmdir á næstu árum.
„Helstu framkvæmdir Landsnets á næstu þremur árum eru á Norðurlandi þar sem við erum að tala um Kröflulínu 3 og Hólasandslínu og síðan á Reykjanesi þar erum við að tala um Suðurnesjalínu 2. Þetta eru áhersluatriðin í meginkerfinu til þriggja ára. Síðan eru staðbundnar aðgerðir um allt land það er á Norðurlandi við Sauðárkrók það er á Austförðum og á Vestfjörðum. Kostnaðurinn við þetta? Við sjáum fyrir okkur að meðaltali næsta áratuginn erum við að tala um svona framkvæmdir fyrir um 8 milljarða á ári þannig þetta eru verulegar fjárfestingar.“
Guðmundur segir að Landsnet gæti ráðið við að rafvæða skemmtiferðaskipin eftir 3 til 4 ár.
„En ég get ekki svarað fyrir dreifiveiturnar hvernig það er. Eins og ég sagði það er svo lítil nýting á þessu þetta er stuttur tími sem skipin stoppa þannig að framkvæmdirnar eru hlutfallslega dýrar. Þannig að það þarf bara að skoða hvert verkefni fyrir sig held ég þar.“