Rafhlaupahjól sjást í auknum mæli í Reykjavík og nú stendur til að fara að leigja þau út, en nokkrir hafa sótt um að reka rafmagnshlaupahjólaleigu eða reiðhjólaleigu í Reykjavík. Mikið hefur selst af rafhlaupahjólum undanfarið. Reynslan af þessum hjólum er misjöfn í borgum Evrópu.

Umferðarreglurnar eru líkar þeim sem gilda um reiðhjól. Ekki má vera á rafmagnshlaupahjólum á götunum og gangandi vegfarendur eiga réttinn á göngustígum. Framleiðendur hlaupahjólanna mæla með reiðhjólahjálmum og frá áramótum verða 16 ára og yngri að nota hjálm.  

Rafmagnshlaupahjólin hafa sums staðar selst upp og þar sem þau eru enn til renna þau hratt út. 

Borgin samþykkti um mánaðamótin verklagsreglur um starfsemi hjólaleiga, sem nýta borgarlandið, og auglýsti eftir samstarfsaðilum, sem myndu gera tveggja ára samning við borgina. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs segir leitað hafi verið til reynslu borga í Evrópu af starfseminni. Að minnsta kosti fimm umsóknir hafa borist. Nú er verið að meta þær. Sigurborg Ósk vonast til að einhver vísir að hjólaleigu verði reyndur síðar í sumar. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fengið neinar kvartanir um svona rafmagnshlaupahjól. En þessum hjólum hefur fjölgað víða í Evrópu. Þar eru hins vegar ólíkar reglur og skiptar skoðanir um þennan nýja öndvegisferðamáta.

Þessi hjól eru komin í flestar stærri borgir Evrópu og njóta talsverðra vinsælda, meðal notenda að minnsta kosti. Stórfyrirtæki eru komin á bragðið, búin að dreifa þúsundum svona hlaupahjóla í evrópskum borgum þar sem hægt að finna þau með snjallsímaappi, leigja fyrir lítinn pening og skilja þau eftir þar sem ferðinni lýkur. Til dæmis í Berlín þar sem notkun þessara hjóla var leyfð fyrir um mánuði. 

Nú eru um fimm þúsund leiguhjól í Berlín, og þau eru skilin eftir hvar sem er. Í Berlín má ekki nota þessi hjól á gangstéttum, bara á hjólastígum eða þá á götunni. En það er ekki alltaf raunin. 

Fjöldi slysa, þar á meðal dauðaslys, hafa verið skráð vegna notkunar þessara hjóla í evrópskum borgum. Fáir virðast nota hjálma og vandamál sem tengjast drukknu fólki á svona hjólum hafa komið upp. Í Kaupmannahöfn varð það til þess að lögregla gerði þar rassíu eina helgina og tók á þriðja tug drukkinna notenda.