„Ég átti nokkra metra í garðinum og fékk svo handfylli af iðnaðarhampsfræjum frá vini mínum,“ segir leikarinn og kokkurinn Erlendur Eiríksson sem nýverið hefur gert tilraunir með að rækta iðnaðarhamp við heimili sitt í Hveragerði.

Við fyrstu sýn lítur ræktin út fyrir að vera nokkuð vafasöm og hampurinn minnir mjög á kannabis-plöntuna. „Þetta er náttúrulega systir ólöglegu plötunnar. Munurinn er í grunninn sá að iðnaðarhampurinn er ekki með ánægjulyfinu í, THC,“ segir Erlendur og fullvissar Síðdegisútvarpið um að hann hafi öll tilskilin leyfi. „Hérna ætla ég að sjá hvernig þetta vex. Þetta eru náttúrulega guðdómlega fallegar plöntur. Ég ætla að prófa að djúsa þetta niður og drekka safann. Ég ætla að mylja fræin og nota í matargerð og er að gera tilraunir með vegan-osta,“ en hann hyggst skýra ostinn Marley Mey, eða Virgin Marley, til heiðurs reggísöngvaranum fræga sem hafði einmitt mikið dálæti á hampi.

Erlendur segir að hampurinn hafi fylgt manninum í tugþúsundir ára. „Þetta er undraverð planta sem er að koma sterk inn aftur. Það eru á milli 6 og 30 þúsund mismunandi notagildi fyrir hampinn, trefjarnar, olíurnar og hvað sem er af plöntunni,“ segir Erlendur og bætir við að sjálfsagt sé að rækta hampinn fyrst hann þrífst hér á norðlægum slóðum. „Nú er búið að siga svínum á kerfilinn. Þannig að við þurfum að finna einhverja aðra skemmtilega plöntu sem er bæði hægt að klæða sig í og éta.“ Og hann fullvissar að lokum útsendara Síðdegisútvarpsins um að ómögulegt sé að nota iðnaðarhampinn til að komast í vímu. „Það er svo lítið THC í þessu að þú þyrftir að reykja heila hlöðu til að komast á hamingjustigið.“

Ísgerður Gunnarsdóttir heimsótti Erlend Eiríksson í Hveragerði og ræddi við hann fyrir Síðdegisútvarpið.