Gera þarf úrbætur á meðferðarheimilinu í Krýsuvík svo hægt sé að skrifa undir nýjan samning um rekstur þess. Krafa er gerð um fasta viðverðu starfsmanns - en vistmaður svipti sig lífi þegar enginn var á vakt. Félagsmálaráðherra segir að það væri glapræði að loka heimilinu og vill tryggja rekstur þess til framtíðar.
Á meðferðarheimilinu í Krýsuvík dveljast vímuefnaneytendur sem hafa ítrekað reynt að ná bata áður en ekki tekist. Þetta er langtímameðferð og er meðferðartíminn frá sex mánuðum upp í tvö ár. Þar dvelja að jafnaði 20 einstaklingar og er biðtími eftir meðferð langur, um þrír til sex mánuðir. Í dag eru um 30 karlmenn og tíu konur á biðlista.
Óvíst hvort vaktmaður hefði breytt einhverju
Málefni Krýsuvíkur hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum nú síðast fyrir 10 dögum eftir að ungur maður svipti sig þar lífi. Það gerðist um helgi en enginn vaktmaður er á staðnum eftir klukkan fjögur á daginn og um helgar. Sú tilhögun sætti ámæli í úttekt sem Landlæknir gerði á starfseminni árið 2016. Framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna, Soffía Björk Smith, segir ekki hægt að fullyrða að föst viðvera vaktmanns hefði komið í veg fyrir þennan harmleik. „Það hafa verið framin sjálfsmorð inn á lokuðum stofnunum þar sem er vakt allan sólarhringinn. Ég veit það ekki, ég get ekki svarað því.“
Beðið eftir Landspítalanum
Skrifað var undir samning í sumar sem gildir til áramóta. Í honum er kveðið á um úrbætur í rekstri og gerð krafa um vakt allan sólarhringinn. Verið er að útbúa aðstöðu fyrir vaktmann í Krýsuvík og er stefnt á að hann hefji störf á allra næstu dögum. Þá var Landspítalanum falið að gera úttekt á starfseminni og á hún að liggja til grundvallar framtíðarsamningi. Sú úttekt hefur enn ekki farið fram og starfsemin því í nokkurri óvissu. „Við höldum áfram. Það hefur ekki áhrif á starfsemina sem slíka. Við erum með veika einstaklinga og við þurfum að sinna þeim. Við höldum starfinu áfram þrátt fyrir umfjöllun og samnings....Við höfum gert það og höldum því áfram,“ segir Soffía.
Glapræði að loka heimilinu
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, segir það ekki hafa komið til greina til að loka meðferðarheimilinu. „Vegna þess að ég vildi ekki gefast upp á þeim einstaklingum sem að þarna eru. Þarna eru einstaklingar sem að eiga ekki í nein önnur skjól að vernda og eru einstaklingar sem lenda á mjög gráu svæði í okkar félags- og velferðarkerfi.“
Ráðherra er vongóður um að ráðist verði í þær úrbætur sem þarf til og að reksturinn verði tryggður til langframa. „Það er náttúrlega það sem Krýsuvík er að fara yfir núna og gera breytingar með. Þess vegna gerðum við sex mánaða samning við Krýsuvík með það að markmiði auðvitað að geta gert langtímasamning vegna þess að það eru atriði sem þarfnast lagfæringar en það hefði verið algjört glapræði að mínu viti að loka þessu og láta alla þá einstaklinga sem þar eru fara út á götuna.“