Prjónarar landsins og áhugafólk um íslenska kvikmyndagerð getur tekið gleði sína, því Bíó Paradís efnir í fyrsta skipti til bíósýningar á Stellu í Orlofi þar sem sýningin er sérstaklega er sniðin að þeim sem vilja stunda handavinnu á meðan horft er. Má því segja að prjónaskapurinn sé „partur af prúgrammet.“

Á sunnudaginn stendur Bíó Paradís, í samvinnu við Pétur Oddberg Heimisson skipuleggjanda viðburðarins, fyrir prjónabíói. Þá verður fólki, sérstaklega þeim sem hafa átt í erfiðleikum með að passa þrýstinginn, boðið upp á að horfa á kvikmyndina Stellu í orlofi og prjóna eða stunda annars konar handavinnu á meðan.

„Við settum innlegg inn á nokkrar íslenskar prjónasíður á Facebook-frétt frá Danmörku þar sem verið var að fjalla um prjónabíó þar í landi og áhuginn virtist strax mikill meðal íslenskra prjónara að gera eitthvað svipað. Ég hafði samband við Bíó Paradís sem tók rosalega vel í hugmyndina,“ segir Pétur. Aðspurður hvort fólk geti ekki tekið handavinnuna með á hefðbundna bíósýningu segir Pétur: „Það myndast ákveðin stemning þegar það eru margir í sama rými að prjóna saman. Ég heyrði líka sögu af konu sem tók prjónana með sér í bíó og hún upplifði að horft væri á sig eins og hún væri eitthvað skrýtin.“ Fyrir þetta fólk sem hefur verið feimið við að grípa handavinnuna með í bíóhúsin má telja víst að þetta sé kærkomið framtak.

Pétur segir að sú ákvörðun að sýna Stellu í orlofi við þetta tilefni hafi einfaldlega ráðist af því hvað myndin er frábær, en skipuleggjendurnir hafi líka áttað sig á tengingum myndarinnar við handavinnu. „Guðný Halldórsdóttir sem leikstýrði myndinni er dóttir Halldórs Laxness og Auðar Sveinsdóttur en Auður átti stóran þátt í að þróa íslenska prjónamennsku eins og við þekkjum hana.“

Aðspurður hvort það væri hægt að skipuleggja prjónaskap í kringum fleiri viðburði segir Pétur það mögulegt. „Ég prjóna til dæmis stundum þegar ég horfi á fótbolta.“

Pétur segir að það verði smá lýsing í salnum til að lýsa upp handavinnuna en svo verði fólki gefið tækifæri til að lagfæra það sem á mis fer í hléinu. Enn séu einhverjir miðar eftir á sýninguna en það stefnir í að það verði uppselt svo hann hvetur áhugasama til að næla sér í miða sem fyrst.

Rætt var við Pétur Oddberg í Síðdegisútvarpinu en hlýða má á innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.