Prestar landsins eru frá og með þessum fyrsta degi ársins ekki lengur embættismenn ríkisins og nýr ráðningarsamningur hefur tekið gildi við starfsfólk biskupsstofu og kirkjuráðs. Þetta kom fram í nýárspredikun Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, í Dómkirkjunni í morgun. Þetta sé í samræmi við nýlega samþykktar breytingar á lögum.
Hægt er að hlusta á alla predikun biskups í spilaranum hér fyrir ofan.
Biskup segir að þjóðkirkjan hafi verið sjálfstæð og ráðið innri málum sínum undanfarin 22 ár og margir vilji því meina að aðskilnaður ríkis og kirkju hafi þá farið fram. Nú um áramót hafi frekari skref verið stigin að fullum aðskilnaði þegar viðbótarsamkomulag ríkis og kirkju tók gildi ásamt breytum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem samþykkt hafa verið á Alþingi.
Frá og með deginum í dag hafi starfsfólk biskupsstofu og kirkjuráðs fengið nýjan ráðningarsamning og prestar landsins ekki lengur embættismenn ríkisins. Ekki sé því hægt að halda því frma að tengsl ríkis og kirkju séu náin eða sterk þótt ríkisvaldinu beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna samkvæmt stjórnarskrá. Stjórnarskránni verði ekki breytt nema meirihluti kjósenda vilji það. Meirihlutinn hafi í ráðgefandi kosningu um nýja stjórnarskrá árið 2012 kosið með því að samband ríkis og kirkju yrði áfram staðfest í stjórnarskrá landsins. Þetta segir biskup af einhverjum ástæðum gleymast í umræðum um nýja stjórnarskrá.
„Þessi nýstaðfesta 62. grein byggir á þeirri forsendu siðbótarinnar að almannavaldið, almenningur í kirkjunni eða hið veraldlega hafi um það að segja hvernig kirkjan er, en ekki eingöngu prestarnir. Menn geta haldið áfram að ræða tengsl ríkis og kirkju eða aðskilnað ríkis og kirkju en mikilvægara er að samfylgd þjóðar og kristinnar trúar haldi áfram, hér eftir sem hingað til,“ segir Agnes í nýárspredikun sinni.
Græn kirkja
Biskup segir þjóðkirkjan líti um þessar mundir sérstaklega til þrettánda heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum. Öllum hljóti að vera ljóst að aðgerðir í loftslagsmálum séu nauðsynlegar til lífs á jarðarkringlunni. „Fólk um allan heim reynir afleiðingar hækkandi hitastigs í þurrkum, flóðum og öfgum í veðurfari. Samvinna almennings og þjóða heims eru nauðsynleg og ábyrgðarfull.“
Eitt af megin hlutverkum kirkjunnar á 21. öldinni er að vera rödd umhverfisverndar og sjálfbærni í lifnaðarháttum. Græna kirkjan verði virk og beinskeytt rödd þeirrar boðunnar. Græna kirkjan sé þjóðkirkja landsmanna.
Kirkjan klettur andlegrar velferðar
Biskup Íslands segir að byggja þurfi upp og standa vörð um andlega velferð samfélaga. Andleg velferð sé lykill að lífsgæðum og hamingju manna.
Biskup segir að kirkjan hafi ríkt erindi á 21. öldinni og boðskapurinn aldrei verið mikilvægari fyrir andlega velferð fólks. Kirkjan var, er og mun verða klettur andlegrar velferðar á Íslandi, segir biskup.