Pólsk stjórnvöld styðja íslenska ríkið í Landsréttarmálinu fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu. Pólverjar liggja undir ámæli fyrir afskipti framkvæmdavaldsins af dómstólum.
Alls óskuðu þrír aðilar formlega eftir því að fá að skila skriflegri greinargerð til yfirdeildarinnar vegna málsins. Auk ríkisstjórnar Póllands eru það The Helsinki Foundation for Human Righst, mannréttindasamtök í Varsjá, og umboðsmaður almennings í Georgíu, sem lýsa stuðningi við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins sem úrskurðaði að íslenska ríkið hafi brotið sjöttu grein mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Í mars komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Sigríður Andersen þáverandi dómsmálaráðherra og Alþingi hefðu brotið landslög við skipun dómara í Landsrétt.
Landsréttarmálið geti haft áhrif
Í beiðni ríkisstjórnar Póllands segir að Landsréttarmálið skipti gríðarlega miklu máli og tengist breytingum sem Pólverjar hafi gert og vilji gera á dómskerfinu. Þá segir að niðurstaða málsins geti haft áhrif á evrópskar reglur um skipun dómara. Breytingum á dómskerfinu í Póllandi hefur verið mótmælt harðlega og stjórnvöld sökuð um fjandsamlega yfirtöku á réttarkerfinu. Mannréttindasamtökin í Varsjá segja engan vafa um að málið snerti beint þann vanda sem samtökin standi frammi fyrir, við að standa vörð um sjálfstæði dómstóla í Póllandi. Þá segist umboðsmaður almennings í Georgíu reiðubúinn til aðstoðar enda sé margt líkt með vandamálum Georgíu og Íslands við skipun dómara.
Öll þrjú eru sammála um að Landsréttarmálið hafi mikilvægt fordæmisgildi fyrir önnur Evrópuríki. Það er á skjön við greinargerð íslenska ríkisins um málið þar sem segir að mikilvægt sé að greina málið frá vandamálum í öðrum Evrópuríkjum. Yfirdeildin samþykkti allar þrjár beiðnirnar um að skila inn fullri greinargerð og er skilafrestur til sjötta janúar. Málflutningur hefst fimmta febrúar.