Pólverjar á Íslandi eru orðnir fleiri en tuttugu þúsund. Fæstir þeirra hafa áhuga á að setjast að hér á landi, heldur koma hingað í tímabundin uppgrip. Ný doktorsrannsókn Önnu Wojtynsku leiðir í ljós að íslenskur vinnumarkaður verður sífellt stéttskiptari eftir þjóðerni, og tilhneigingin er sú að Pólverjar eru ráðnir í lægstlaunuðu störfin.
Pólverjar eru langstærsti hópur erlendra ríkisborgara sem býr hér á landi, og eru orðnir 20.146. Þeim hefur fjölgað um fimm prósent frá því í desember, eða um tæplega þúsund. Þrátt fyrir þennan fjölda vita innfæddir Íslendingar ekki eins mikið um þennan stóra minnihlutahóp eins og búast mætti við, miðað við að Pólverjar búsettir hér eru fleiri en íbúar Akureyrar. Hvar eru til dæmis pólsku veitingastaðirnir í Reykjavík?
Fæstir vilja setjast hér að
Anna Maria Wojtynska veit meira um sambýli Pólverja og Íslendinga en flestir, því hún varði doktorsritgerð sína í mannfræði við Háskóla Íslands núna fyrir helgi - þar sem hún rannsakar reynslu pólsks farandfólks á Íslandi.
Rannsóknir hennar leiða í ljós að fæstir Pólverjar sem hingað koma hafa áhuga á að setjast hér að, heldur ferðast iðulega fram og til baka milli landanna tveggja, og leggja áherslu á að halda sterkum tengslum við heimahagana. En samband þjóðanna er sterkt, og Pólverjar urðu fljótlega stærsti hópur erlendra ríkisborgara á Íslandi eftir að landamærin voru opnuð fyrir fólki frá gömlu austantjaldslöndunum. Pólverjar þekktu betur til Íslands en hinar nýju Evrópuþjóðirnar, og hér hefur yfirleitt verið þörf fyrir vinnufúsar hendur.
„Ég held að fyrirtæki hafi leitað að Pólverjum í Póllandi til að vinna hér. Það eru líka meiri samskipti á milli landanna, það er fólk hér fyrir sem segir að hér sé góð vinna og gott kaup, og hjálpar öðru fólki að koma hingað til Íslands," segir Anna.
Helsta ástæðan fyrir því hversu margir Pólverjar koma til að vinna á Íslandi sé að hér er næga vinnu að fá, og launin hærri en í Póllandi: „Þau geta komið hingað, unnið í stuttan tíma og safnað peningum til að kaupa hús í Póllandi, eða einhverja hluti."
Anna segir þó að ekki komi allir hingað af svo praktískum ástæðum: „Það eru líka margir sem koma út af þeirri ímynd sem þeir hafa gert sér af Íslandi - það er langt í burtu, ekki eins og stórborgir í öðrum löndum, nálægt náttúrunni - þau vilja búa í svona landi. Svo eru aðrir sem fara frá Póllandi af stjórnmálaástæðum, þau eru ekki ánægð með það sem er að gerast í Póllandi."
Aðgreining á vinnumarkaði
Þetta fólk komi hingað í leit að meira jafnrétti og minni stéttskiptingu en í Póllandi. Engu að síður leiða rannsóknir Önnu Wojtynsku í ljós að það færist í vöxt að Íslendingar líti á pólskt farandfólk sem láglaunafólk sem hægt sé að grípa til til bráðabirgða. Það setur mark sitt á stöðu þeirra á vinnumarkaði og í þjóðfélaginu sem heild. Tilhneigingin sé sú að Pólverjar séu ráðnir í lægstu stöðurnar á vinnumarkaði, sem greinist sífellt meira í aðskildar starfsgreinar eftir þjóðerni.
Vinnuveitendur hafi mikil áhrif á það hvernig Pólverjum vegnar á Íslandi. Anna segir að sumir endi í vinnu hjá fyrirtækjum sem misnota erlent starfsfólk og hafa jafnvel af því laun. Flestir séu þó ánægðir hér, en menntað fólk á þó meiri möguleika á því að kynnast Íslendingum. Þar skiptir miklu máli hvort það talar íslensku.
„Sumir Pólverjar eru með vinnu sem krefst menntunar, og ég held að þeir eigi í meiri samskiptum við Íslendinga, tali íslensku og svoleiðis," segir Anna. „En stærsti hópurinn af Pólverjum kemur bara til Íslands til að vinna, er eins og farandverkafólk, vinnur fyrir starfsmannaleigur eða sem útsendir starfsmenn, og þeir eiga ekki mikil samskipti við Íslendinga. Ekki heldur á vinnustöðum þar sem Íslendingar vinna sérfræðistörfin en Pólverjarnir sinna almennum störfum."
Anna telur að Pólverjar í lægstu stöðunum eigi í minnstum samskiptum við Íslendinga. Fyrir því kunni að vera ýmsar ástæður.
„Það er líka vegna þess að fólkið vinnur svo mikið. Það vinnur 10-12 tíma á dag, vill bara safna peningum og fara aftur til Póllands."
Heldur þú að Pólverjar upplifi að Íslendingar hafi fordóma gagnvart þeim og vilji ekki kynnast þeim?
„Það er það sem sumir segja."
Minni samfélög opnari fyrir útlendingum
Anna segir að flestir lýsi jákvæðum samskiptum við Íslendinga, en oft þurfi ekki nema einn óþægilegan atburð, að verða fyrir mismunun eða dónaskap úti í búð, til að fólki finnist það verða fyrir fordómum eða útilokun í samfélaginu. Samskiptin virtust ganga best í smærri samfélögum.
„Þegar ég talaði við fólk í þorpum víðs vegar um Ísland, þá sögðu þau alltaf frá því hvað Íslendingar væru opnir og hjálplegir, kæmu færandi hendi með húsgögn og byðu alla hjálp," segir Anna.
Hún telur mikla möguleika fólgna í því að auka samskipti og samgang milli Íslendinga og Pólverja á Íslandi. Landið sé stórt og dreifbýlt, og fyllsta þörf á vinnufúsum höndum, hvaðan sem þær koma.
Hún hefur sjálf fest hér rætur, gift íslenskum manni og á tvö börn sem æfa fótbolta hjá KR. Við erum sammála um að það sé skrýtið að ekki skuli vera pólskur veitingastaður á landinu, með allan þennan fjölda Pólverja - og okkur hin, sem kunnum að meta gott pierogi.
„Það er dálítið skrýtið, vegna þess að Pólverjar elska pólskan mat," segir hún.
Þetta lýsi að einhverju leyti stöðu Pólverja á Íslandi: þeir sem opna veitingastaði bjóði frekar upp á íslenskan eða alþjóðlegan matseðil, séu feimnir við að halda fram pólskri menningu og hefðum í matargerð.
Leiðrétting: Ranghermt er í greininni að enginn pólskur veitingastaður sé starfræktur á landinu, því hægt er að kaupa pólskan mat í hádeginu á Café Hreyfli á Grensásvegi í Reykjavík.