Plötusnúðatvíeykið Storm og Kemistry voru frumkvöðlar í drum'n'bass geiranum á 10. áratug síðustu aldar en Kemistry lést í voveiflegu bílslysi fyrir 20 árum síðan.
Þórður Ingi Jónsson skrifar:
Breska plötusnúðatvíeykið Kemistry og Storm ruddi brautina fyrir drum'n'bass-tónlistarsenuna á tíunda áratugnum. Drum'n'bass er afsprengi reif-tímabilsins í Bretlandi en Kemistry og Storm stofnuðu Metalheadz ásamt Íslandsvininum Goldie, en íslenski tónlistarmaðurinn Agzilla er á mála hjá útgáfunni.
Kemistry og Storm gáfu út frægt mix fyrir DJ-Kicks-geisladiskaseríuna árið 1999, sem hafði mikil áhrif á nýja kynslóð taktsmiða og plötusnúða um allan heim. Storm þeytir enn skífum en Kemistry lést í voveiflegu bílslysi á leiðinni heim eftir tónleika, seint um kvöld í apríl árið 1999, fyrir 20 árum.
Raftónlistarheimurinn hefur á undanförnum vikum minnst Kemistry og framlags hennar. Framlag hennar og vinkonu hennar Storm var ekki síst á bak við tjöldin þótt þær kæmu oft og víða fram og nytu mikillar virðingar í senunni. Þær voru sannir frumkvöðlar og áhrifa frá samstarfi þessara tveggja kvenna gætir enn víða.
Saga þeirra hefst í smábænum Kettering norður af Lundúnum seint á níunda áratugnum. Vinkonurnar Kemistry, sem hét réttu nafni Kemi Olusanya, og Jayne Coneely, sem seinna kallaði sig Storm, ákváðu að flýja leiðindin heima fyrir og flytja til stórborgarinnar Lundúna. Á þessum tíma var reif-senan í fullu fjöri og Kemi djammaði mikið en Jayne var meira fyrir námsbækurnar og gaf lítið fyrir reifið, nýju tónlistarsenuna sem átti eftir að tröllríða heiminum. Leikar enduðu þó þannig að Kemi dró vinkonu sína með sér á reifkvöld og þá var ekki aftur snúið. Samkvæmt Storm var það í nýársreifi áramótin 1990, sem þær stóðu stjarfar og fylgdust með plötusnúðnum á staðnum þeyta skífum. Þetta var það sem þær vildu gera og í framhaldinu hófu þær að byggja upp massívt plötusafn, hvor um sig.
Það var um svipað leyti sem Kemi hitti Goldie, sem var á þeim tíma lítt þekktur graffitilistamaður nýkominn úr pílagrímsferð til Bandaríkjanna. Kemi var að vinna í plötubúð í London og Goldie heillaðist af ljósu dreddlokkum hennar. Hann bauð henni á stefnumót og Kemi samþykkti að hann kæmi með þeim vinkonum, henni og Jayne á klúbbinn Heaven. Þar stóðu plötusnúðarnir Grooverider og Fabio fyrir kvöldi sem þeir kölluðu Rage. Þetta klúbbakvöld var í rauninni eins konar fæðingarstaður drum'n'bass og jungle-stefnanna sem þróuðust út frá svokallaðri hardcore-tónlist, þar sem blandað var saman house, teknói, hip-hopi, dub, diskói og fleiru.
Sumar ástarinnar
Graffarinn Goldie, sem var þá nýkominn frá hinni grimmu og hörðu stemningu í Bandaríkjunum, skildi hvorki upp né niður þegar hann var kominn á þennan klúbb í Lundúnum. Ólíkir kynþættir og hópar voru á þessum tíma mjög aðskildir í Bandaríkjunum en þarna mátti sjá fólk saman af öllum kynþáttum. Goldie hafði nefnilega misst af sumri ástarinnar sem ríkti á reif-tímabilinu í Bretlandi á síðustu árum níunda áratugsins. Á þeim tíma dönsuðu allir saman í algleymi og flúðu þannig lífsgæðakapphlaup Thatcher-tímabilsins.
Tónlistin náði ekki til Goldie til að byrja með en eftir næsta Rage-kvöld sem hann sótti með Kemi og Jayne skildi hann loksins um hvað málið snerist. Hann hóf að pródúsera svona tónlist, og á meðan myndu Kemi og Jayne þeyta skífunum hans á klúbbnum. Þau þróuðu hugmyndina að útgáfunni sem seinna átti eftir að verða Metalheadz. Goldie þessi átti reyndar líka eftir að verða þekktur tengdasonur Íslands þegar hann og Björk nokkur Guðmundsdóttir fóru að stinga saman nefjum, en það er önnur saga.
Margir héldu þær karla
Faðir Kemi var efnafræðingur svo að Kemistry var augljóst nafnaval og einhver hafði sagt að skap Jayne væri stormasamt. Þær tóku sér því listamannsnöfin Kemistry og Storm. Storm segir að þær hafi viljað hafa nöfn með órætt kyn, þannig að menn voru oft hissa þegar þær mættu til að spila – eiginlega allir plötusnúðar í senunni voru karlar fyrir utan hina máttugu DJ Rap. Á meðan Kemistry og Storm héldu úti þáttum á sjóræningjaútvarpsstöðvum í London byggðu þær upp Metalheadz-útgáfuna og slógu tóninn fyrir drum'n'bass-senuna.
Sem plötusnúðar voru Kemistry og Storm með einstakan stíl, sem var bæði mjúkur og harður í senn. Þótt Goldie hafi endað sem andlit drum'n'bass þá má ekki gleyma því að það voru þær Kemistry og Storm sem kynntu hann fyrir tónlistinni. Þegar Goldie fékk samning hjá útgáfu plötusnúðsins fræga Pete Tong, FFRR Records, þá tóku Kemistry og Storm við yfirstjórn Metalheadz. Eftir það var útgáfan komin á flug og Metalheadz-hópurinn spilaði reglulega á hinum sögufræga Blue Note-klúbbi.
Og sigurganga þeirra stallsystra hélt áfram. Með plötu sem þær unnu fyrir hina fyrrnefndu DJ-Kicks útgáfuseríu komust þær enn lengra í hinni alþjóðlegu tónlistarsenu. Þær héldu í tónleikaferðalag um Bandaríkin, sem var hápunktur ferils þeirra. En það voru teikn á lofti – á lokadegi ferðalagsins um Bandaríkin sagðist Kemi hafa fengið fyrirboða um dauðsfall. Þær flugu aftur heim til Bretlands en gátu hvorugar losnað við þessa óskiljanlegu og óhugnalegu tilfinningu.
Snemma morguns þann 25. apríl árið 1999 var Jayne að keyra ásamt Kemi heim frá tónleikum í Southampton. Sendiferðabíll sem ók fyrir framan þær rakst á umferðarspegil, og stálstöngin sem hélt speglinum uppi flaug í gegnum framrúðuna á bílnum og lenti á Kemi, sem lést samstundis. Hún hafði reyndar oft haft það á orði að hún myndi deyja ung. Hún hafði einnig haldið því fram að hún yrði þekkt sem Marilyn Monroe drum'n'bass-senunnar. Allt þetta hefur ræst en andi hennar lifir, já og tónlistin.
Kemistry og Storm höfðu alltaf skipt mixum sínum upp og þær spiluðu ekki plötur hvor annarrar þegar þær komu fram. Eftir dauða Kemi fór Storm að blanda saman tónlist þeirra henni til heiðurs. En ekkert varð eins og áður. Storm segir feril sinn hafa lent í smá lægð eftir andlát sálarsystur sinnar.
Samfélagsmiðlarnir breyttu þessu þó á afgerandi hátt. Árið 2016 fékk raftónlistarmaðurinn Mumdance Storm til að þeyta skífum í Boiler Room tónleikaröðinni og þetta skipti sköpum fyrir hana. Síðan þá hefur ný kynslóð fengið að þetta alvöru breska sánd frá einum gamalreyndasta plötusnúði senunnar.