Stúdentar við Háskóla Íslands efndu til samkomu í Stúdentakjallaranum í kvöld til þess að fylgjast með umfjöllun Kveiks um Samherjaskjölin og stórfelldar mútugreiðslur félagsins til namibískra stjórnmálamanna.

Viðburðurinn á Stúdentakjallaranum var auglýstur á Facebook. Þegar fréttastofa hafði samband var staðurinn nærri fullur. „Ég mundi segja að staðurinn sé svona 80 prósent fullur,“ sagði barþjónninn.

Þingflokkur Pírata kom líka saman til þess að horfa á þáttinn í þingflokksherbergi þeirra á Alþingi. Þau sátu límd við skjáinn þegar kvikmyndatökumaður fréttastofu heimsótti þau og báðu vinsamlegast um að vera ekki trufluð.