Óvissan sem nú ríkir um Landsrétt, eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í gær, er mjög alvarleg, að mati Jóhannesar Karls Sveinssonar hæstaréttarlögmanns. Þegar dómararnir fimmtán voru skipaðir sagði hann í umsögn sinni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að í uppsiglingu væri hneyksli sem ætti eftir að valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu.

„Þetta er fyrst og fremst óvissan sem er þá fyrir þá sem að eru búnir að fá dóma, kannski sitja í fangelsi eða eitthvað þess háttar og þá fyrir þá tugi og hundruð mála sem biða úrlausnar. Hvernig á að greiða út þessu? Á að taka bara einhvern veginn áhættuna af því að þetta blessist einhvern veginn eða þetta verði allt ónýtt eftir að við erum búin að halda áfram í einhvern tíma? Það er svona viðfangsefni dagsins sem er mjög alvarlegt,“ sagði Jóhannes í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.  

Málið hefur þróast frekar illa, að mati Jóhannesar. „Það voru gerðar athugasemdir strax í upphafi og það fóru mál fór fyrir dóm og þess var krafist að þessar aðgerðir yrðu ógiltar strax í upphafi. Það var nú ekki fallist á það heldur fengu þessi umsækjendur sem fengu ekki störfin bætur, eins og fólk þekkir. Hins vegar hefur dómstóllinn haldið sínu striki, sem var skipaður þarna með ólögmætum hætti, samkvæmt þessum dómi sem féll í gær.“ Þeir fjölmörgu dómar sem hafi fallið síðan þá séu stóra vandamálið.