Yfir tvö þúsund heimili hafa eyðilagst í gróðureldunum í Ástralíu og óttast er um afdrif dýrategunda í útrýmingarhættu. Svæðið sem þegar hefur brunnið er á við 80 prósent af flatarmáli Íslands.

Loftmengun í Canberra hefur verið sú mesta í heiminum undanfarna daga. Þar seljast rykgrímur eins og heitar lummur.

Allt í kring um höfuðborgina hafa skógareldar logað undanfarna daga, vikur og mánuði.  Verst hefur ástandið verið í ríkjunum Nýja-Suður-Wales og Viktoriu. En gróðureldarnir loga víðar, til að mynda má í Queensland, og Suður- og Vestur-Ástralíu. 

Þá er ótalið það svæði sem þegar er brunnið. Það telur nú um 84 þúsund ferkílómetra. Ástralía er býsna stór að flatarmáli.

Til samanburðar má nefna að svæðið sem brunnið hefur síðan í haust er álíka stórt og um áttatíu prósent af Íslandi. 

Staðfest er að minnst 26 hafa látist vegna eldanna. Milljónir dýra hafa drepist og óttast er um afdrif margra dýrategunda sem eru í útrýmingarhættu. Fleiri en tvö þúsund heimili hafa orðið eldunum að bráð. 

Veðurhorfur næstu daga eru reyndar bærilegar, eins konar stund milli stríða þótt eldarnir logi enn víða. Hitinn hefur lækkað aðeins síðustu daga en á föstudag er útlit fyrir hiti hækki aftur með tilheyrandi eldhættu.