Bæjarstjórinn á Akranesi hefur áhyggjur af því að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að setja breikkun Vesturlandsvegar í umhverfismat tefji framkvæmdir um meira en ár. Vegagerðin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort ákvörðunin verður kærð.

Skipulagsstofnun ákvað í júní að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar þurfi að fara í umhverfismat. Breikkaður verður um níu kílómetra kafli um Kjalarnes, á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg, þannig að tvær akreinar verði í aðra áttina og ein í hina. Einnig verða lagðir hliðarvegir, hringtorg og göngu-, hjóla- og reiðstígar. 

Hjá Vegagerðinni hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort kæra eigi ákvörðun Skipulagsstofnunar en frestur til þess rennur út í næstu viku. Ef ákvörðunin fær að standa og framkvæmdirnar þurfa að fara í umhverfismat, er víst að þær tefjast. Enn er gert ráð fyrir að hafist verði handa í haust og að verkinu ljúki árið 2022.

Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa miklar áhyggjur af því að umhverfismatið tefji framkvæmdir á Kjalarnesi. 

„Ef að tímalínan er að tefjast um ár vegna þessa þá sjáum við fram á að framkvæmdir muni ekki hefjast fyrr en seint á næsta ári,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. „Og það eru mikil vonbrigði en við viljum reyna að ýta á að það geti gerst hraðar.“

Tvö banaslys urðu á Vesturlandsvegi í fyrra og fleiri alvarleg umferðarslys hafa orðið á vegkaflanum sem á að breikka. Sævar Freyr undirstrikar að breikkun vegarins er mikið öryggismál.

„Þetta er gríðarlega mikið öryggismál fyrir Vestlendinga og Skagamenn og alla þá sem fara um þennan veg,“ segir hann. „Og við óttumst að þetta muni tefja framkvæmdina og því viljum við að allir aðilar muni koma sér saman um það að flýta öllum skrefum sem þarf svo að þessi aðgerð hjá Skipulagsstofnun muni ekki tefja þetta frekar.“