Formaður nefndar breska þingsins um heimskautasvæðin hefur áhyggjur af hernaðaruppbyggingu Rússa á norðurslóðum og segir hernaðarumsvif þeirra hafa aukist verulega á síðustu tveimur til þremur árum.

Áhyggjufullur vegna hernaðaruppbyggingar

Breski þingmaðurinn James Gray er áhyggjufullur vegna hernaðaruppbyggingar Rússa á norðurslóðum á síðustu árum. Hann ræddi ógnanir á norðurslóðum í erindi á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og öryggismál. Gray er margreyndur í utanríkis- og öryggismálum, hann er meðal annars formaður nefndar breska þingsins um heimskautasvæðin.  Hann hefur fylgst með þróun mála á norðurslóðum áratugum saman og líst ekki á hernaðaruppbyggingu Rússa.

Hafa tvöfaldað fjölda kafbáta 

James Gray er eindreginn stuðningsmaður vestrænnar samvinnu í varnar- og öryggismálum og situr á NATO-þinginu og í sameiginlegri nefnd beggja deilda breska þingsins um þjóðaröryggismál. Gray segir að Rússar hafi byggt upp bæði tækjabúnað og fjölgað í herliði sínu á svæðum í Rússlandi nálægt heimskautasvæðinu og það valdi verulegum áhyggjum, þeir hafi nú tvöfalt fleiri kafbáta og séu betur búnir til neðansjávarhernaðar.

Fleiri herdeildir

Þeir hafi bætt tveimur herdeildum sem eru þjálfaðar í heimskautahernaði við herliðið nærri Múrmansk. Rússneskar sprengjuflugvélar rjúfi lofthelgi NATO-ríkja með reglubundnum hætti. Hernaðarumsvif Rússa á norðurslóðum hafi aukist verulega á síðustu tveimur til þremur árum. Vissulega sé ekki hægt að gera athugasemdir við að Rússar hafi herlið til landvarna í norðri, en þeir hafi fjárfest í hernaðaruppbyggingu þarna fyrir tugi milljarða bandaríkjadala, þetta sé meira en þeir hafi efni á og því segist James Gray vera áhyggjufullur vegna hættu frá Rússum.

Áhugi Kínverja á norðurslóðum

Á fundi Varðbergs ræddi Gray meðal annars fyrirætlanir Kínverja á norðurslóðum. 

Við verðum að vera meðvituð um áhuga Kínverja til lengri tíma á norðurskautinu og norðurslóðum. Þeir fjárfesta nú gríðarlegar upphæðir í innviðum erlendis og ætla má að það sé vegna þess að þeir telji svæðið hér á norðurslóðum geta orðið efnahagslegan eða hernaðarlegan vettvang til langs tíma litið, sagði James Gray.

Kínverjar og Finnafjörður

Hann sagðist einnig hafa heyrt frá mörgum  að allar líkur væru á að kínverskt fjármagn stæði að baki fjármögnun hafnaruppbyggingar í Finnafirði. Kínverjar hefðu áhuga á úthafshöfn á Íslandi við enda á siglingaleiðinni yfir norðurslóðir þar sem skip á leið frá Kína gætu komið. Gray tók raunar fram að hann hefði engar áþreifanlegar sannanir fyrir þessu en þetta væri framgangsmáti Kínverja.

Hafa fjarfest mikið á Grænlandi

Gray sagði að Kínverjar hefðu reynt að fjárfesta í þremur stórum flugvöllum á Grænlandi. Honum skildist að Bandaríkjamenn og Danir hefðu stöðvað það, en Kínverjar hefðu sýnt Grænlandi mikinn áhuga. Gray sagði einnig að Kínverjar hefðu fjárfest mikið í námum á Grænlandi þar sem væri unnið mikið af sjaldgæfum málmum.

Siglingar á norðurslóðum verða ekki gullnáma á næstunni

Gray ræddi einnig siglingar á norðurslóðum. Hann sagði að nú þegar sigldu skip reglulega frá Norður-Rússlandi með fljótandi gas til bæði Evrópu og Kína og Japans. Gray sagði að þó að hafís hefði minnkað væri siglingaleiðin ekki greið. Sérútbúin skip þyrfti til að sigla þessa leið.

Leiðin verður ekkert sem jafnast á við Panama- eða Súez-skurðina á allra næstu árum.


Gray benti á að þó að hafísinn héldi áfram að minnka væri langt í að hann hyrfi, hann væri því efins um að siglingar um norðurslóðir yrðu sú gullnáma sem fólk hefði talið fyrir fimm til sex árum.