Um eitt þúsund og fimm hundruð íbúar Whaley Bridge í Derbyskíri í Bretlandi hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna ótta við flóðbylgju. Brestir eru komnir í stíflugarð fyrir ofan þorpið, eftir mikla úrkomu undanfarna daga.
Whaley Bridge er um þrjú hundruð kílómetra norðvestur af Lundúnum. Á fimmtudaginn komu brestir í stífluna og var íbúum þá gert að yfirgefa heimili sín. Ekki hefur rignt í dag og því hefur íbúum verið leyft að snúa tímabundið heim til að sækja mikilvægar eigur. Breska veðurstofan hefur þó gefið út gula viðvörun fyrir morgundaginn og búist er við úrhellisrigningu.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kom til Whaley Bridge í gærkvöld. Hann ræddi við íbúa sem þurftu að yfirgefa heimili sín og sagði nauðsynlegt að endurbyggja stíflugarðinn.