Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sátu á fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í fjármálaráðuneytinu, Arnarhváli í dag. Fundinum lauk á fjórða tímanum og þá sögðu þeir Óttarr og Benedikt að ekkert hefði verið ákveðið um framhaldið.

Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar segir að fólk sé ekki alveg komið þangað ennþá. Tíminn er naumur því formaður Sjálfstæðisflokksins var búinn að tala um að hugsanlega skilaði hann stjórnarmyndunarumboði fyrir helgina ef ekkert gengi. Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður talaði við Óttar og Benedikt Jóhannesson formann Viðreisnar að fundi loknum.

„Það var bara eins og áður, við höfum bara verið að spjalla um þetta. Hann þarf að ákveða hvort hann vill mynda stjórn eða skila sínu stjórnarmyndunarumboði og við vorum bara að fara yfir stöðu málsins“, Benedikt Jóhannesson. 

Ætlið þið að halda áfram?
„Ja, við erum að tala saman alla vega ennþá, og við erum að, eins og Benedikt segir, að skoða málin, hvort að það sé ástæða til þess að halda áfram. Við erum ekki alveg komin þangað en við erum ennþá að ræða það.“

Hvenær kemur það í ljós?
„Ja, það er í framtíðinni, vonandi ekki of fjarlægri“, segir Óttar. 

Verður það síðar í dag eða í kvöld? 
„Ja, Bjarni hefur talað um að hann vilji ákveða sig af eða á fyrir helgi. Og ef að helgin byrjar á miðnætti þá gæti það verið þá“, segir Benedikt.

Þannig að þið eruð að fara að tala áfram við ykkar fólk?
„Ja, það verður mikið talað saman í dag, væntanlega“, segir Óttar.

Ætlið þið að tala saman þessi tveir flokkar? 
„Já, ég reikna með því að við höldum áfram okkar spjalli svona bara núna síðar í dag, seinni partinn“, segir Benedikt. 

Kallið þið þá þingmenn ykkar, nýkjörna þingmenn, til fundar? 
„Við höfum bara ekki tekið ákvörðun um slíkt. Við Benedikt stöndum alla vega hérna hlið við hlið og munum væntanlega spjalla saman á leiðinni niður eftir“, segir Óttar.  

„Já, við getum fullyrt það“, sagði Benedikt að lokum. 

Viðtal við Óttarr og Benedikt má sjá hér að ofan.