Þrjátíu og níu ferðamönnum og tíu starfsmönnum ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland var bjargað af Langjökli í morgun. Virginia Galvai frá Brasilíu óttaðist um öryggi barna sinna og finnst óskiljanlegt að fyrirtækið fái að starfa.

Virginia fór í ferðina með tveimur sonum sínum, 14 og 11 ára, og vinum sínum. Hún lýsir ferðalaginu í viðtalinu sem má horfa á hér að ofan og áhyggjum hennar af sonum sínum. Þeir hafi um tíma verið hvor í sínum bílnum og hún farið á milli til að kanna líðan þeirra.

Þau áttu von á mikilli ævintýraferð sem breyttist í mikla hrakninga. „Ég tel að þeir hafi ekki getu til að standa í svona en þetta land er svo stórkostlegt og það eru svo margir staðir til að heimsækja. Ég skil ekki hvernig fyrirtæki sem þetta getur starfað í ferðamennsku á Íslandi,“ sagði Virginia í viðtali við Ölmu Ómarsdóttur í fjöldahjálparmiðstöðinni í Gullfosskaffi snemma í morgun. 

Börnum hennar var orðið mjög kalt og hélt hún þeim yngri fast að sér á meðan þau biðu eftir hjálp. Hún segir að yngra barnið hafi beðið úti eftir hjálp í um sex tíma en það eldra í um sjö og hálfan tíma. Fjölskyldan ætlar að ferðast til fleiri landa eftir dvölina hér en hún segir að börnin vilji bara fara heim, enda líði þeim illa eftir þessa lífsreynslu.  

Mikill viðbúnaður var vegna björgunaraðgerðanna í nótt. Fulltrúar Rauða krossins, lögregla, sjúkraflutningamenn, læknar og hjúkrunarfræðingar tóku á móti fólkinu í Gullfosskaffi. Hermann Maggýjarson, yfirmaður sjúkraflutninga Suðurlands, segir að fólkið hafi verið betur á sig komið en óttast var í fyrstu og viðbúnaður var sá sami og við hópslys. „Við hugsum alltaf út frá því að fólki sé mjög kalt og það var fyrsta hugsunin, að hlúa að þeim þannig að þau væru ekki orðin ofkæld og reyna að vinna út frá því en sem betur fer voru þau í skjóli og komust inn í bíla sem reyndar gátu ekki gengið fyrir vélarafli þannig að þau voru búin að vera gríðarlega lengi inni í þessum bílum og lengi í þessu vonda veðri.“

Ekki hafi orðið slys en óttast var að fólkið myndi ofkælast. „Þarna eru börn og fólk með sjúkdóma sem við höfum mestar áhyggjur af. Við þurfum að vera tilbúin fyrir það versta og þannig undirbjuggum við okkur,“ sagði hann í samtali við Ölmu áður en fólkið kom í fjöldahjálparmiðstöðina.  

Sleðabjörgunarsveit Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu var kölluð út klukkan átta í gærkvöld. Kári Rafn Þorbergsson er í sveitinni og segir að vel hafi gengið að finna fólkið en ferðin hafi tekið langan tíma vegna óveðursins. „Það létti svakalega á fólkinu þegar það vissi að það væru bjargir á leiðinni og það voru ekki margir sem virtust vera mjög kaldir. Það var fljótt að koma hiti í fólk þegar það kom inn í hlýja bíla.“ Fyrst var fólkinu komið í skála og þaðan á þremur snjóbílum og tveimur jeppum til byggða.