Gísli Marteinn Baldursson, sem lýsti Eurovision, segir að það hafi ekki átt að koma mjög á óvart að Hatari gerði eitthvað til að vekja athygli á hernámi Ísraela á Palestínu. Sjálfur hafi hann óttast að þau myndu gera eitthvað alvarlegra sem gæti dregið meiri dilk á eftir sér.
Gísli Marteinn ræddi í Silfrinu í dag uppákomuna þegarar nokkrir meðlimir Hatara brugðu á loft klútum í palestínsku fánalitunum. Hann sagði að viðbrögðin hefðu ekki orðið mjög mikil í höllinni, einhverjir Ísraelar í salnum hefðu púað en fjöldi listamanna hefði komið til Hatara og hrósað þeim.
„Ég held að raunverulega hafi það ekki komið neitt svakalega á óvart að Hatari hafi gert eitthvað með þessum hætti. Ég segi fyrir mig að ég óttaðist alveg að það gæti komið eitthvað sem væri alvarlegra og drægi þyngri dilk á eftir sér en þetta mun gera,“ sagði Gísli. Hann sagði að þetta væri eitthvað sem hægt sé að ræða við EBU án þess að það hafi alvarlegar afleiðingar. Hann tók líka fram að það hefði áður gerst að keppendur hefðu gert eitthvað svipað. Til dæmis hefðu Norðmenn sveiflað fána Sama í vikunni þó svo að það sé ekki heimilt samkvæmt reglum og bæði keppendur frá Aserbæjan og Armeníu hafi notað Eurovision til að vekja athygli á sínum málstað.
Gísli Marteinn kvaðst ekki vita hvaða afleiðingar uppákoman í gær kynni að hafa. Hugsanlega væri hægt að víkja Íslandi úr keppni, meina því þátttöku á næsta ári eða stroka út árangur Íslands í ár. „Við erum eitt af stóru atriðunum í ár. Það væri hægt að strika það út með einhverjum hætti.“