„Það er gaman að finna hvað kvikmyndahátíðir skipta miklu máli. Við kynnumst, tengjumst og sjáum inn í hvors annars heima. Það er líka svo gaman að sjá að til er fólk alls staðar í heiminum sem er þyrst í menningu annarra landa,“ segir Ingvar E. Sigurðsson leikari sem var tilnefndur til verðlauna á Evrópsku kvikmyndahátíðinni sem fram fór í Berlín síðustu helgi.

Tilnefningu hlaut Ingvar fyrir aðalhlutverkið í Hvítum hvítum degi sem Hlynur Pálmason skrifaði og leikstýrði. Verðlaunin hreppti hinsvegar Antonio Banderas fyrir leik í mynd Pedrós Almodóvars, Dolor y Gloria. 

Hvítur hvítur dagur hefur notið góðs gengis á verðlaunahátíðum víða um heim. „Við erum búnir að ferðast mikið með myndina, ég og Hlynur leikstjóri. Við höfum svolítið verið að skipta okkur upp af því að hún er búin að vera svo vinsæl á kvikmyndahátíðum úti um allan heim í rauninni,“ segir Ingvar.

Heimilisleg stemning

Berlín er heimaborg verðlaunanna og hátíðin er haldin þar annað hvert ár og hitt árið í ferðast hún á milli annarra evrópskra borga. Á næsta ári er komið að Reykjavík og verður hátíðin þá haldin í Hörpu 12 desember. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur yfirumsjón með framkvæmd viðburðarins en hún gegnir starfi verkefnastjóra Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Reykjavík 2020.

Leikkonan Hera Hilmarsdóttir afhenti verðlaun á hátíðinni í ár í flokki teiknaðra kvikmynda. Hún bar verðlaununum og aðdraganda þeirra vel söguna. „Mér líður rosalega mikið eins og maður sé einhvern veginn heima en samt í Berlín. Stemmarinn litast af því að það er fullt af Íslendingum hérna núna og Ingvar náttúrulega tilnefndur. Hún er dálítið heimilisleg og evrópsk einhvern veginn,“ segir hún.

Gera þetta veglega á Íslandi

Baltasar Kormákur situr í akademíu verðlaunanna og þekkir því vel tilnefnd verk og aðstandendur vel. Að hans mati var afrakstur þessa árs í evrópskri kvikmyndagerð prýðilegur. „Já, þetta var mjög fínt. Auðvitað breytist það milli ára en við erum til dæmis með Pedro Almodóvar núna, Polanski og the Favourite sem fór á þessu ári inn í European Film Academy. Það er mikið af flottum myndum sem eru í boði.“

Hann segir gildi verðlauna sem þessara margþætt. „Hluti af því að vera í þessu fyrir mig eru samskiptin, af því að ég hef líka verið að vinna í Bandaríkjunum og þar er allt annað lið. Það er mikil ánægja að vera hluti af þessu og vera í samskiptum við evrópska kvikmyndagerð.“

Að hans sögn er fagnaðarefni að verðlaunin verði haldin hér á landi að ári. „Það er frábært að tekist hafi að sannfæra íslenska stjórnmálamenn, Lilju menntamálaráðherra og Dag borgarstjóra um að taka höndum saman og gera þetta veglega á Íslandi. Það er geggjað og ég er mjög þakklátur.“

Mest skapandi þjóð í heimi

Pólski leikstjórinn og handritshöfundurinn Agnieszka Holland er fráfarandi stjórnarformaður verðlaunanna. Kvikmyndir hennar hverfast helst um samfélagsádeilu og afleiðingar stríðs. Að hennar mati er tilhlökkunarefni að verðlaunin verði haldin á Íslandi. „Hlutfallslega er þetta mest skapandi þjóð í heimi, miðað við höfðatölu eru ótrúlega margir skapandi og hæfileikaríkir einstaklingar.  Íslenskar kvikmyndir eru við góða heilsu, að framleiða 5-7 kvikmyndir á ári á íslensku og minnst helmingur þeirra fer í dreifingu um allan heim. Það er ótrúlegur árangur.“