Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, telur að það hafi verið óþarfi hjá Guðna Th. Jóhannessyni forseta að veita stjórnarmyndunarumboð fyrir helgina. Þetta sagði hún í þættinum Vikunni hjá Gísla Marteini Baldurssyni. Guðni veitti Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, í dag umboð til stjórnarmyndunar. Hún er þriðji þingmaðurinn sem fær stjórnarmyndunarumboð á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá alþingiskosningum.

„Það eru allir að tala saman. Ég held að þessi langi aðlögunartími, pörunartími fram að nýrri ríkisstjórn, sé bara ágætur fyrir þingið. Fólk er að kynnast. Fólk er að þreifa á hverju öðru málefnalega séð. Ég held að sama hver á endanum verður í ríkisstjórn muni þessi tími nýtast þinginu og vonandi vinnubrögðunum til langframa,“ sagði Þorgerður Katrín. „Að láta einhvern fá umboð, ég held að það skipti ekki öllu máli. Ég held að það sé óþarfi núna fyrir þessa helgi. Það er ljóst að menn hafa verið að tala saman á síðustu dögum, síðustu vikum. Það er allt að þróast.

Birgitta sagði á Bessastöðum í dag, þegar hún tók við stjórnarmyndunarumboðinu, að hún vildi og teldi hægt að mynda fimm flokka stjórn. Aðild að henni myndu eiga þeir flokkar sem ræddu saman í síðasta mánuði; Píratar, Vinstri-græn, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin. Hún sagði að flokkarnir yrðu að vera reiðubúnir til að gefa eitthvað eftir af sínum kröfum til að ná samkomulagi. Birgitta sagði að hlutverk miðjuflokkanna væri að byggja brú milli þeirra flokka sem þyrftu sennilega að gefa mest eftir, Viðreisnar sem væri lengst til hægri og Vinstri grænna sem væru lengst til vinstri í þessum viðræðum.

Guðni Th. Jóhannesson forseti sagðist hafa leyft sér að vera bjartsýnn á stjórnarmyndun síðustu vikur þó ekkert hefði verið fast í hendi. Hann sagði að enn væri tími til stefnu. Alþingi kemur saman á þriðjudag, í fyrsta sinn eftir kosningar, og Guðni sagðist vilja heyra fréttir af gangi viðræðnanna eftir helgi.