Formaður BSRB segir ósvífið af Viðskiptaráði að hvetja til þess að opinberir starfsmenn taki á sig launaskerðingu. Opinberi geirinn sé ekki tæki til að jafna sveiflur í efnahagslífinu.
Viðskiptaráð hefur hvatt opinbera starfsmenn til að taka á sig launaskerðingu og sýna þar með gott fordæmi á erfiðum tímum. Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB voru gestir Silfursins í morgun.
Kjaraskerðingar þvert á línuna
„Fólk sem er að vinna hjá einkageiranum er ekki í jafn öruggu starfi og hjá opinbera geiranum. Það er starfsóöryggi hjá þessum aðilum. Á meðan þú sem ert hjá ríkinu það er eiginlega sama hvað gengur á að þú munt halda þínu starfi, segir Ásta Sigríður Fjeldsted er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
„Við erum einfaldlega að óska eftir því að við sjáum það að við sýnum samstöðu. Að við förum í kjaraskerðingar eða hagræðingaraðgerðir þvert á línuna; sama hvort það er einkamarkaður eða opinberi geirinn,“ bætir Ásta við.
Opinberi vinnumarkaðurinn ekki til að jafna sveiflur
„Störfin á opinberum vinnumarkaði eru ekki tæki til að jafna sveiflur í efnahagskerfinu, og hefur aldrei verið. Þið þekkið það vel hvaða tæki við notum til þess. Við erum að segja; hafi einhvern tímann verið þörf á að verja opinber störf. Þá er það núna,“ segir Sonja Ýr.
Sonja Ýr óttast kröfur um niðurskurð á opinberri þjónustu eins og í hruninu. Hún segir að almannaþjónustan sé ekki búin að ná sér eftir hrunið. „Það hefur ótrúlega rík áhrif á fólk þegar það er verið að skerða tekjur þeirra. Þetta er áfall. Það er verið að tala um lífsviðurværi þeirra. Þannig að beinlínis að hvetja til þess með þessum hætti finnst okkur einfaldlega ósvífið. Fyrsta skrefið sem við erum að taka er að verja heimilin. Þetta er ekki leiðin til þess að slægjast eftir auka tekjum með þessum hætti,“ segir Sonja.
Vilja vernda störfin
„Ég held við séum meira sammála en ósammála bara verð að fá að segja það, við erum vissulega að tala um sama hlutinn. Það er okkur í mun að vernda störfin. Þá erum við að tala um öll störfin í landinu. Það er einfaldlega þannig að það er allur vinnumarkaðurinn undir,“ svarar Ásta Sigríður.