Forstjóri kísilverksmiðju PCC á Bakka segir lágt heimsmarkaðsverð á kísilmálmi og óstöðugan rekstur helstu ástæður þess að félagið leitar nú að allt fimm milljarða króna fjármögnun til að styrkja reksturinn.
Kísliverksmiðja PCC var gangsett vorið 2018. Vandamálin hafa helst snúið að rykhreinsibúnaði frá ofnum hennar. Hluthafar telja nauðsynlegt að fá fimm milljarða króna innspýtingu til að tryggja rekstrargrundvöll hennar.
Verksmiðjan getur framleitt um 32.000 tonn á ári, eða um 90 tonn á dag. Undanfarnar vikur hefur framleiðslan sveiflast mikið og farið niður í 35 tonn á dag.
Deilt er um hvort framleiðandi ofnanna eða PCC beri ábyrgð á kostnaði af lagfæringum sem þarf að gera á þeim. Því máli er enn ólokið og ekki ljóst hvort það verði leyst fyrir dómstólum eða með samkomulagi.
Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að hluthafar í verksmiðjunni, þýska fyrirtækið PCC, auk íslenskra lífeyrissjóða, leiti að allt að fimm milljarða fjármögnun. Fundað var með hluthöfum í vikunni og þeir upplýstir um stöðu mála.
Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC vildi ekki veita fréttastofu viðtal, en sagði í samtali að ástæða þess að leitað væri til fjárfesta væri fyrst og fremst slæm staða á erlendum mörkuðum.
Íslenskir lífeyrissjóðir og Íslandsbanki eiga 13,5 prósenta hlut í kísilveri PCC í gegnum samlagshlutafélagið Bakkastakk. Samtals jafngildir fjárfestingin í kísilverinu um tíu milljörðum króna. Ómar Örn Tryggvason, einn forsvarsmanna Bakkastakks, segir að ekki hafi verið ákveðið hvort lífeyrissjóðirnir komi að fjármögnuninni. Það verði ákveðið á næstu vikum.
En það eru ekki bara vandræði í fjármögnun. Í tvígang hefur starfsmaður orðið fyrir byssuskoti við störf sín, síðast í ágúst. Byssa er notuð til að losa þrýsting af bræðsluofnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu fékk starfsmaðurinn byssukúlu í höndina en slasaðist ekki lífshættulega. Rúnar staðfestir að starfsmaður hafi orðið fyrir skoti við störf sín, hann hafi ekki virt öryggisreglur. Hann sé nú kominn aftur til starfa.