Öskudagshefðin er sérlega rík á Akureyri. Finna má heimildir um barnaskemmtanir og ketti slegna úr tunnum norðan heiða síðan snemma á nítjándu öld. Á öskudag árið 1967 náði fréttamaður RÚV einstökum myndum af ungum Akureyringum klæddum í ýmis gervi og má á myndunum finna meðal annars litla trúða, herramenn og hjúkrunarkonur.
Í dag hafa hátíðarhöld í kringum öskudag breyst nokkuð en í stað þess að slá ketti úr tunnum og hittist á torgum er nú algengara að börn gangi syngjandi milli verslana og fái sælgæti að launum.
Um rætur öskudagsins í íslenskri menningu segir Erla Hulda Halldórsdóttir lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands í grein á Vísindavefnum:
„Athyglisvert er að bolludagur (sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld) og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum og þá tíðkaðist víða um landið að „marséra“ í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að „marséra“ og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar upp fyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan breiðst út á ný.“
Rétt er að geta þess að bandarísk hrekkjavökuhefð hefur einnig náð nokkurri fótfestu hér á landi, en hrekkjavakan er haldin á Allra sálna messu að hausti. Hafa íbúar ýmissa hverfa Reykjavíkur, til dæmis í Árbæ og Vesturbæ, skipulagt viðgjörning að því tilefni og boðið börnum að syngja fyrir sælgæti á dyraþrepum, að bandarískum sið.
Athugið að klippunni fylgir ekki hljóð.