Níu manns hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn á þremur innbrotum í gagnaver í desember og janúar. Einn þeirra er starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar. Ránin tengjast greftri eftir rafmyntum. Verðmæti þýfisins nemur um 200 milljónum. Rannsókn málsins er mjög umfangsmikil. Lögregla vill beina þeim tilmælum til fólks sem kann að búa yfir upplýsingum um málið, að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum.
Innbrotin áttu sér stað í þremur gagnaverum á tímabilinu frá 5. desember til 16. janúar. Eitt þeirra var í gagnaver Advania að Fitjum á Reykjanesi, annað hjá Borealis Data Center í Borgarbyggð en ekki hafa fengist upplýsingar um það þriðja. Þá var tilraun gerð til fjórða innbrotsins. Lögregla telur að málin tengist. Verðmæti þýfisins nemur um 200 milljónum króna. Búnaðurinn, sem er ófundinn, er fyrst og fremst notaður til þess að grafa eftir bitcoin og öðrum rafmyntum. Sú starfsemi er kölluð námugröftur og getur gefið mikið í aðra hönd.
Lögreglan handtók níu manns í tengslum við rannsóknina síðari hluta janúar. Fjórir þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Tveir eru enn í gæsluvarðhaldi, en tveimur hefur verið sleppt. Annar þeirra vann sem öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni, en fyrirtækið annast öryggismál Advania, meðal annars að Fitjum. Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Öryggismiðstöðvarinnar, segir að maðurinn sé kominn í ótímabundið leyfi frá störfum og mál hans sé komið í ferli innan fyrirtækisins. Hann segir að málið sé harmleikur og starfsfólk fyrirtækisins sé í áfalli. Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að öryggisvörðurinn hafi aðstoðað innbrjótsþjófana við að athafna sig á vettvangi.
Skipulögð glæpastarfsemi
Rannsókn málsins er mjög umfangsmikil, en Lögreglan á Suðurnesjum hefur rannsakað það í samvinnu við lögregluembættin á Vesturlandi, Norðurlandi eystra og á höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningu frá Advania segir að málið sé rannsakað sem skipulögð glæpastarfsemi. Brotist hafi verið inn á framkvæmdasvæði fyrirtækisins að Fitjum í Reykjanesbæ um miðjan janúar. Nokkrir menn hafi þá brotist inn í álmu í gagnaverinu sem ekki hafi verið tilbúin að fullu, og haft á brott verðmætan tækjabúnað. Búnaðurinn geymi ekki gögn og því hafi tjónið aðeins verið fjárhagslegt.
Atvikið náðist á öryggismyndavélar og er ljóst að um þaulskipulagðan verknað er að ræða, að því er fram kemur í tilkynningu Advania. Að ósk lögreglu hafi ekki verið unnt að upplýsa um innbrotið fyrr en nú. Margþætt öryggi er á gagnaverunum Advania og hefur það verið aukið enn frekar eftir innbrotið á Fitjum, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagðist í samtali við fréttastofu í dag lítið geta tjáð sig um málið, enda sé rannsókn þess á viðkvæmu stigi. Lögregla vilji þó beina þeim tilmælum til fólks sem kunni að búa yfir upplýsingum um málið, að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum.