Ísland lauk undirbúningi sínum fyrir Evrópumótið í Frakklandi með því að leggja Lictehenstein af velli á Laugardalsvelli í kvöld, 4-0. Sigurinn var síst of stór því íslenska liðið stjórnaði leiknum frá upphafi og fékk fjölda góðra marktækifæra.

Kolbeinn Sigþórsson kom Íslandi á bragðið á 10. mínútu eftir undirbúning frá Alfreð Finnbogasyni. Þetta er tuttugusta mark Kolbeins fyrir Ísland. Tíu mínútum síðar skoraði Birkir Már Sævarsson stórkostlegt mark. Birkir lét vaða af um 30 metra færi og söng boltinn í netinu við mikinn fögnuð áhorenda á Laugardalsvelli.

Alfreð Finnbogason skoraði þriðja og síðasta mark fyrri hálfleiks eftir mikinn atgang við mark Liechtenstein.

Eiður Smári Guðjohnsen kom inná sem varamaður í síðari hálfleik og var nálægt því að skora fjórða mark leiksins um miðjan síðari hálfleik en var réttilega dæmdur rangstæður.

Eiður Smári skoraði hins var lokamark leiksins eftir magnaðan samleik á 82. mínútu leiksins. Hann sendi boltann afar skemmtilega á Gylfa, tók svo á rás. Gylfi sendi boltann á Theodór Elmar Bjarnason sem renndi boltanum snyrtilega á Eið Smára sem skoraði af stuttu færi. 26 mark Eiðs Smára fyrir Ísland og vonandi nær hann að bæta við marki í safnið á Evrópumótinu í Frakklandi.

Leikurinn var í beinni útsendingu á RÚV. Öll mörk leiksins má sjá í myndbandinu hér að ofan.