Á myndlistarsýningunni Orkuhreyfing á Svavarssafni á Höfn í Hornafirði kallast þær Hildur Steinþórsdóttir og Rúna Thors á við orkuna í verkum Svavars Guðnasonar.

Svavar Guðnason var einn áhrifamesti málari á Íslandi á 20. Öld og brautryðjandi á sviði abstraktmálverksins. Hann fæddist á Höfn í Hornafirði árið 1909 og komst þar í kynni við málaralistina áður en hann hélt til náms í Danmörku. Svavar lést árið 1988 en síðar gaf Ásta Eiríksdóttir, ekkja hans, sveitarfélaginu Höfn í Hornafirði verk sem leiddi til stofnunar Svavarssafns.

Listamenn í samtali við Svavar

Safnið einbeitir sér að Svavari auk þess að safna austur-skaftfellskri list en býður líka starfandi listamönnum að setja upp sýningar, til dæmis þeim Rúnu og Hildi, en sýning þeirra Orkuhreyfingin hefur staðið yfir í allt sumar en þar eru þær í einskonar samtali við verk Svavars. 

„Svavar talaði um orkuhreyfinguna í verkum sínum, hreyfinguna í náttúrunni og við erum að líta á verkin út frá því sjónarhorni,“ segir Hanna Dís Whitehead, safnvörður. „Í verkunum frá Rúnu og Hildi er hreyfingin í efninu sjálfu, þetta er einhvers konar þrívíddarlandslag, grátt og þá í andstæðu við verk Svavars sem eru mjög litrík en með annars konar hreyfingu. Saman hreyfast þau um salinn þannig að það er mikill samhljómur líka.“  

Hanna Dís segir safnið laða að sér marga gesti, þar af erlenda ferðamenn sem þekki margir til Svavars.

„Danir og Hollendingar sérstaklega. Við höfum séð það í gegnum safngestakannanir að þeir vita af honum.“  

Vatnajökull málar

En það er víðar myndlist á Höfn en í Svavarssafni. Við höfnina stendur Mikligarður, gamlar verbúðir í eigu bæjarins, sem listamenn hafa bæði nýtt sem vinnustofur og til sýningarhalds. Í sumar opnaði Halldór Ásgeirsson þar sýninguna Ferð til eldjöklanna í þremur rýmum. 

„Þetta er sýning sem er nátengd svæðinu og sérstaklega Öræfajökli; kröftum hans og tengingu við menningu og sögu og nánasta umhverfi svæðisins.“  

Í einu rýminu setti Halldór upp gjörning í sumar þar sem hann hengdi litla ísjaka upp í taupoka, blandaði bleki við sem blandaðist vatninu þegar ísinn bráðinn og draup niður á pappírsarkir. 

„Og þá er Vatnajökull í raun að mála hérna inni,“ segir Hanna Dís og bætir við að það séu mörg tækifæri fyrir myndlistarmenn á Höfn.

„Það er að minnsta kosti nóg af innblæstri og þetta getur verið mjög gott vinnumhverfi, enda hafa verið opnaðar margar sýningar hér í sumar. Bæði í tengslum við okkur á Menningarmiðstöðinni og á Listasafninu sem og út um allan bæ.“