Kvikmynd Terrys Gilliam, Maðurinn sem myrti Don Kíkóta, ber öll merki þess að hafa verið 30 ár í vinnslu að mati Gunnars Theodórs Eggertssonar gagnrýnanda. „Að myndin hafi loksins orðið að veruleika eftir öll þessi ár er vissulega fagnaðarefni, en sú langa bið ber líklega einnig sökina á helstu göllum myndarinnar.“
Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:
Titill kvikmyndarinnar Maðurinn sem myrti Don Kíkóta, The Man Who Killed Don Quixote, vísar líklega jafnt í aðalpersónu myndarinnar og í leikstjórann sjálfan – Terry Gilliam, sem hefur sjálfur umbreyst í nokkurs konar Don Kíkóta eftir áratugalöng átök. Nú er myndin loksins, loksins komin á hvíta tjaldið, eftir þrjátíu ár í vinnslu, og spurningin er hvort nokkur bíómynd gæti nokkurn tímann staðið undir slíkri eftirvæntingu?
Ómögulegt er að fjalla um þessa mynd án þess að fjalla um baksögu hennar, leikstjórann og auðvitað skáldverkið sjálft. Sagan af þrautagöngu kvikmyndarinnar um Don Kíkóta á rætur að rekja til Orson Welles, sem tókst aldrei að ljúka sinni útgáfu á sínum tíma, og verkefnið hefur borið yfirbragð bölvunar í Hollywood eftir að verkið fór út um þúfur hjá Gilliam í kringum árþúsundamótin. Afraksturinn endaði þó í frábærri heimildamynd – Lost in La Mancha, frá 2002 - sem átti að fjalla um gerð myndarinnar en endaði á að fjalla um dauða myndarinnar. Gilliam gafst þó aldrei upp og á fullt hrós skilið fyrir að hafa haldið kraftinum, sigrast á sínum eigin risum og vindmyllum, og klárað dæmið. Maðurinn sem myrti Don Kíkóta er tileinkuð minningu tveggja aðalleikara sem áttu að bera brynju riddarans en eru nú látnir – John Hurt og Jean Rochefort – enda hefur mikið vatn runnið til sjávar á aldarfjórðungi og myndin tekið stakkaskiptum frá því handriti sem var til staðar á tíunda áratugnum. Upprunalega hugmyndin snerist um tímaflakk og sagði frá nútímamanni sem fór aftur til sautjándu aldar, kynntist hinum raunverulega Don Kíkóta og endaði sem fylgismaðurinn Sancho Panza.
Núna er sagan öllu flóknari og það fer ekki á milli mála að handritið hefur hlotið sjálfsmeðvitaðan blæ, í takt við upprunalegt skáldverkið. Adam Driver leikur Toby, hrokafullan Hollywood-leikstjóra sem er staddur á Spáni að taka upp auglýsingu sem nýtir Don Kíkóta sem efnivið til að selja tryggingar. Tíu árum áður hafði Toby hins vegar gert listræna mynd um Kíkóta á sömu slóðum, þá ungur og efnilegur leikstjóri sem hafði ekki spillst af gróðamaskínu bransans. Hann ákveður að líta í heimsókn á gamla tökustaðinn, sveitaþorpið þar sem hann studdist við raunverulegt fólk sem leikara, og kemst að raun um að myndin hans hafði mótandi áhrif á marga íbúana – og sérstaklega gamla skósmiðinn sem lék Kíkóta, en hann virðist hafa gengið af göflunum og er nú sannfærður um að hann sé hinn eini sanni hetjulegi riddari. Skósmiðurinn heldur auðvitað að Toby sé Sancho Panza og þar með sogast leikstjórinn inn í furðulega fantasíu sem leikur sér að öllum mörkum skáldskapar, ímyndunarveiki og raunveruleika.
Að Maðurinn sem myrti Don Kíkóta hafi loksins orðið að veruleika eftir öll þessi ár er vissulega fagnaðarefni, en sú langa bið ber líklega einnig sökina á helstu göllum myndarinnar, því hún ber þess merki að hafa verið lengi í vinnslu. Myndin er heilmikil óreiða, alltof löng og handritið virðist hafa tapað fókusnum einhvers staðar í ferlinu. Terry Gilliam hefur líka sagt svipaða sögu um þurran bransakarl sem sogast inn í brjálaða miðaldafantasíu í gegnum vináttu við geðtruflaðan útlaga á mun hnitmiðaðri og tilfinningaríkari hátt í The Fisher King frá 1991, einni af allra bestu myndum leikstjórans. Svo er auðvitað freistandi að hugsa um Monty Python – ég verð að játa að í fyrsta skoti myndarinnar átti ég rétt eins von á að heyra í glymjandi kókoshnetum – en það er Kíkóta til hróss hversu sjaldan ég hugsaði aftur til Python á meðan á áhorfi stóð.
Óreiðan er samt ekki öll af hinu slæma og eyðileggur ekki fyrir heildarupplifuninni, því blóð Terry Gilliams rennur um æðar hvers einasta ramma og það er alltaf gaman að rifja upp kynnin við hugarheim hans, þótt myndin standist ekki samanburð við meistaraverk leikstjórans. Margt bitastætt er þar að finna, glæsilegar sviðsmyndir og búninga, ævintýralegar og draumkenndar senur í bland við raunsæi kvikmyndabransans, og leikararnir eru stórgóðir, sérstaklega Jonathan Pryce, sem ljær Kíkóta nauðsynlega dýpt. Það er nefnilega heilmikil dýpt innan um alla óreiðuna, því baksagan hefur gert myndina lagskipta á einstakan hátt. Sagan af Don Kíkóta er orðin sagan af Terry Gilliam og sagan af myndinni sjálfri og þeim myndum sem aldrei urðu, auk þess að vera líka aðlögun á skáldsögu Cervantes. Vissulega ætti maður að vega og meta myndina sem sjálfstætt verk, en í þessu tilfelli er það einfaldlega ekki hægt. Rétt eins og síðara bindi skáldsögunnar átti í óbeinum samræðum við fyrra bindið, þá er þessi kvikmynd í óaðskiljanlegum samræðum við sína eigin fortíð og virkar sérstaklega vel þegar litið er á hana þannig; sem hluta af stærri sögu um leikstjóra sem verður hluti af sínu eigin listaverki, rétt eins og listaverkið varð hluti af honum sjálfum, og með það í huga er Maðurinn sem myrti Don Kíkóta stórmerkileg mynd.