Hatari stígur á svið í kvöld fyrir Íslands hönd í fyrri undankeppni Eurovision í kvöld. Í gærkvöldi ákváðu dómarar hversu mörg stig þeir gefa Hatara í undankeppninni. Opnunarhátíð keppninnar seinkaði vegna mótmæla.

Hatari flutti lagið Hatrið mun sigra á dómararennsli í Expo-höllinni í Tel Aviv í gærkvöldi. Stig dómara sem gefin eru fyrir frammistöðu í rennslinu gilda til jafns við stig úr símakosningu áhorfenda. Hatari er þrettánda atriði á svið í fyrri undanriðli keppninnar sem fram fer í kvöld. Veðbankar spá Íslandi góðu gengi. 

Hátíðin fór formlega af stað í gærkvöldi í miðborg Tel Aviv með mikilli opnunarhátíð sem stóð yfir í fjórar til fimm klukkustundir þegar listamennirnir gengu appelsínugula dregilinn. Opnunarhátíðin tafðist vegna mótmælaaðgerða en keppnin í ár er umdeild. Gagnrýnendur segja að Ísrelsstjórn noti keppnina til að koma á framfæri boðskap sínum um ágæti Ísrael. Mótmælandi, sem rætt var við í kvöldfréttum í gær, sagðist taka þátt í aðgerðum til að mótmæla menningarþvætti. Mótmælendur hafni glysi og práli á meðan Palestínumenn væru hersetnir og vilja sýna íbúum Gaza óg réttindum þeirra samstöðu.